Handbolti

Sportpakkinn: „Berum fullt traust til þess að Gunni klári veturinn vel“

Sindri Sindrason skrifar
Gunnar Magnússon stýrir Haukum og Aron Kristjánsson tekur svo við af honum.
Gunnar Magnússon stýrir Haukum og Aron Kristjánsson tekur svo við af honum. Vísir/Vilhelm

Aron Kristjánsson segist stoltur af því að sjá lið Hauka í efsta sæti Olís-deildar með 11 uppalda Haukamenn í sínum hópi. Hann tekur við þjálfun liðsins í þriðja sinn í sumar.

„Við erum að sjá það núna að í æfingahópnum hjá okkur eru 84-85% uppaldir Haukastrákar og í 14 manna leikmannahópnum okkar eru 11 uppaldir Haukastrákar. Það er bara frábært og smástolt í því, segi ég sem Haukamaður, að við getum verið með lið í toppsætinu sem borið er uppi af Haukastrákum,“ sagði Aron við Ríkharð Óskar Guðnason í Sportpakkanum í kvöld.

Tilkynnt var um ráðningu Arons í gærkvöld en hann tekur við af Gunnari Magnússyni í sumar. Aðspurður hvort hann sé reiðubúinn að taka við liðinu fyrr óski stjórn Hauka þess svaraði Aron:

„Það er ekki planið. Við berum fullt traust til þess að Gunni klári veturinn mjög vel.“

Áður en að Aron tekur við Haukum mun hann stýra Barein á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Hann mun því missa af blábyrjun undirbúningstímabilsins hjá Haukum.

„Í þetta skipti eru Ólympíuleikarnir mjög snemma miðað við oft áður, klárast 9. ágúst, sem þýðir að við verðum rétt komnir í gang með undirbúninginn. Undirbúningurinn byrjar vanalega í kringum 23.-25. júlí. Þetta er ekki hættulegt ástand þarna í byrjun undirbúningstímabilsins og þá munum við að sjálfsögðu hafa aðstoðarþjálfara sem mun vinna með liðið fyrstu vikurnar,“ sagði Aron og bætti við að næsta mál á dagskrá væri einmitt að ráða aðstoðarþjálfara.

Klippa: Aron Kristjáns ræðir um næsta starfFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.