Körfubolti

Ægir setti nýtt stoðsendingamet í bikarúrslitum i Höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson bjó til 36 stig með sendingum sínum í Höllinni í gærkvöldi.
Ægir Þór Steinarsson bjó til 36 stig með sendingum sínum í Höllinni í gærkvöldi. Vísir/Bára

Stjörnumaðurinn Ægir Þór Steinarsson spilaði heldur betur uppi liðsfélaga sína í undanúrslitum Geysisbikarsins í gærkvöldi og setti um leið nýtt met í bikarúrslitum.

Ægir Þór Steinarsson var með 15 stoðsendingar í 98-70 stórsigri Stjörnunnar á Tindastól í Laugardalshöllinni og bætti þar með gamla stoðsendingametið um tvær stoðsendingar.

Ægir er því nú sá leikmaður sem hefur gefið flestar stoðsendingar í einum leik í bikarúrslitum í Laugardalshöllinni.

Pavel Ermolinskij átti gamla metið en hann gaf 13 stoðsendingar í sigri KR á Breiðabliki í undanúrslitaleik í Laugardalshöllinni 10. janúar 2018.

Pavel Ermolinskij á ennþá metið yfir flestar stoðsendingar í sjálfum bikarúrslitaleiknum en hann gaf 11 stoðsendingar í bikarúrslitaleik á móti Grindavík árið 2011. Pavel deilir þar metinu með þeim Arnari Frey Jónsson (með Grindavík 2010) og Eiríki Önundarsyni (með ÍR 2011). 

Uppspil Ægis hafði líka frábær áhrif á Stjörnuliðið sem vann þær 33 mínútur sem hann spilaði með 27 stigum. Hann var hæstur í plús og mínus í sínu liði.

Ægir átti flestar stoðsendingar á þá Nikolas Tomsick og Kyle Johnson eða fjórar á hvorn. Hann átti þrjár á Tómas Þórður Hilmarsson, tvær á Hlyn Bæringsson og eina á þá Arnþór Freyr Guðmundsson og Ágúst Angantýsson.

Stjörnumenn skoruðu alls 36 stig eftir þessar fimmtán stoðsendingar frá Ægi en sex þeirra voru fyrir þriggja stiga skot.

Flestar stoðsendingar í leik í bikarúrslitum i Laugardalshöllinni:
(Tölfræði í bikarúrslitum hefur verið skráð frá árinu 1993)
15 - Ægir Þór Steinarsson, Stjörnunni (Undanúrslit 12.2.2020, á móti Tindastól)
13 - Pavel Ermolinskij, KR (Undanúrslit, 10.1.2018 á móti Breiðabliki)
11 - Eiríkur S Önundarson, ÍR (Bikarúrslitaleikur, 24.2.2001 á móti Hamri)
11 - Arnar Freyr Jónsson, Grindavík (Bikarúrslitaleikur, 20.2.2010 á móti Snæfelli)
11 - Pavel Ermolinskij, KR (Bikarúrslitaleikur, 19.2.2011 á móti Grindavík)
10 - Jakob Ö Sigurðarson, KR (Bikarúrslitaleikur, 15.2.2009 á móti Stjörnunni)
10 - Jón Kr Gíslason, Keflavík (Bikarúrslitaleikur, 6.2.1993 á móti Snæfelli)
10 - Justin Shouse, Stjarnan (Bikarúrslitaleikur, 21.2.2015 á móti KR)
10 - Justin Shouse, Snæfell (Bikarúrslitaleikur, 24.2.2008 á móti Fjölni)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.