Innlent

Verktakar máttu ganga í störf blaðamanna Mbl.is

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Húsakynni Morgunblaðsins í Hádegismóum.
Húsakynni Morgunblaðsins í Hádegismóum. Vísir/egill

Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, var sýknað í meginatriðum af ásökunum um verkfallsbrot í verkfalli vefblaðamanna fyrir áramót. Málskostnaður var felldur niður. Félagsdómur kvað upp dóm þess efnis núna klukkan 16:30 í húsakynnum Landsréttar. Fréttaskrif Baldurs Arnarsonar, blaðamanns Morgunblaðsins, á Mbl.is voru úrskurðuð ólögleg. 

Baldur er félagi í VR en ekki Blaðamannafélagi Íslands. Dómari las upp þær fréttir Baldurs sem þóttu brjóta í bága við lög um stéttarfélög og vinnudeilur:

Björk í Terminator VI, birtist klukkan 10:18

Gjörbreytir orkukerfi Norðurlandsbirtist klukkan 11:35

Svigrúm til vaxtalækkana, birtist klukkan 12:04

Hefja niðurrif árið 2020, birtist klukkan 13:04

Meðalverð á fermetra 637 þúsund, birtist klukkan 13:36

Blaðamannafélagið stefndi Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, fyrir félagsdóm þann 14. nóvember vegna þess sem félagið taldi verkfallsbrot við vinnustöðvun 8. nóvember, sem varði frá 10 til 14. Þrátt fyrir verkfall birtust áfram tugir frétta á vef Morgunblaðsins, þrátt fyrir að starfsmenn vefsins hafi lagt niður störf. 

Félagsdómur gerði ekki athugasemd við það að fréttir sem höfðu verið unnar fyrir vinnustöðvunina hafi verið birtar meðan á verkfallinu stóð. Birting þeirra hafi ekki falið í sér að starfsmennirnir sem þær skrifuðu hafi verið við störf í vinnustöðvuninni. Fyrrnefndur Baldur skrifaði hins vegar sínar fréttir á milli klukkan 10 og 14 og skrif hans því ólögleg sem fyrr segir. Að sama skapi var ekki sett út á það að verktakar, sem standa utan stéttarfélaga, hafi skrifað fyrir vefinn. 

Biðstaða hefur verið í kjaraviðræðum blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins allt frá verkfallsaðgerðunum í nóvember og desember. Kjarasamningar félagsmanna blaðamannafélagsins, sem eru um 600 talsins, hafa verið lausir síðan í byrjun síðasta árs.

Fréttin hefur verið uppfærð


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×