Umfjöllun og viðtöl: Fram - HK 29-30 | HK vann óvæntan sigur á Fram.

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristján Ottó Hjálmsson var markahæstur í liði HK með sjö mörk í dag.
Kristján Ottó Hjálmsson var markahæstur í liði HK með sjö mörk í dag. vísir/daniel

Botnlið HK vann óvæntan sigur á Fram í Safamýrinni í Olís deild karla í dag. Lokatölur 30-29 gestunum í vil en þetta var aðeins þriðji sigur þeirra í deildinni.

Fram höfðu unnið sterkan sigur á ÍR í síðasta leik á útivelli. Í dag tóku þeir á móti botnliði HK og þurftu nauðsynlega á sigri að halda ef þeir ætluðu sér að ná Stjörnunni um síðasta lausa sæti í úrslitakeppninni.

Fram mættu vel gíraðir inn í leikinn og tóku þeir fljótlega forystuna. Andri Dagur átti góða innkomu í byrjun leiks en hann skoraði þrjú af fyrstu fimm mörkum Fram. Í stöðunni 7-7 fær Ægir Hrafn beint rautt spjald fyrir að fara groddalega í andlitið á Pétri Árna og var þetta enginn vafi í augum Antons og Jónasar.

Leikurinn var jafn framan af í fyrri hálfleik en síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks kviknaði á HK bæði sóknarlega og varnarlega og var þar Pétur Árni sem dró vagninn fyrir gestina. Hálfleiks tölur voru 14-16 og meðbyr með gestunum.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri endaði, HK með yfirhöndina en Framarar ekki langt á eftir. Um miðjan seinni hálfleik kemst HK fjórum mörkum yfir 18-21 á þeim kafla var Stefán Huldar sjóðheitur og var hann að verja mikið af dauðafærum. Eins og áður í leiknum var Fram ekki langt undan og gerðu þeir sín áhlaup. HK kemst síðan í 23-27 stöðu en þá fær Kristófer Dagur 2ja mínútna brottvísun fyrir að fara í andlitið á Andra Degi.

Fram vaknaði vel við þessa brottvísun og jöfnuðu þeir leikinn og gerðu síðustu mínútur leiksins gríðarlega spennandi. Pálmi Fannar skoraði tvö mikilvæg mörk fyrir gestina undir lok leiks sem lönduðu sínum þriðja sigri á tímabilinu og eru komnir uppfyrir Fjölni.

Af hverju vann HK leikinn?

HK spilaði lengi vel sjö á sex sem gekk mjög vel, vörn Fram opnaðist mikið of virtust þeir alltaf fá dauðafæri. Sóknarleikur HK var mjög góður og skoruðu þeir 30 mörk sem er afar sjaldséð á móti vörn Fram.

Hverjir stóðu upp úr?

Pétur Árni átti mjög góðan fyrri hálfleik. Pétur spilaði góða vörn allan leikinn og var mjög duglegur að finna línuna. Kristján Ottó var mjög traustur á línunni hjá HK, Kristján skoraði sjö mörk úr jafn mörgum skotum, einnig var Kristján góður varnarlega. Stefán Huldar stóð upp úr í liði HK, Stefán byrjaði leikinn kaldur en eftir að hann varði 1-2 bolta var eins og hann hafi ýtt á einhvern on takka hjá sér. Stefán endaði með 15 varða bolta og voru þetta mikið af dauðafærum sem Stefán var að verja.

Hvað gekk illa?

Fram réði illa við sóknarleik HK þeir voru án Andra Heimis og fór Ægir Hrafn snemma útaf með rautt spjald sem gerði vörn Fram mjög erfitt fyrir. Sóknarlega var Fram að fara rosalega ílla með dauðafærin sín. Matthías Daðason var kaldur í leiknum en hann klikkaði tveimur vítum og nokkrum dauðafæum.

Hvað er framundan?

Fram gerir sér ferð norður og mætir þar KA í næstu umferð. HK spilar heimaleik við FH og mætir Jóhann Birgir aftur í Kórinn en hann var á láni hjá HK fram til áramóta.

Halldór Jóhann: Elías sagði við mig að þetta var okkar bolti

Halldór Jóhann var ekki ánægður með leik sinna manna í dag. 

„Það fara ansi margir hlutir úrskeiðis hjá okkur í dag, við fáum á okkur 30 mörk það er eitthvað sem við erum ekki vanir að gera, við klikkum á mörgum dauðafærum markvarslan er enginn og vorum bara virkilega slakir í dag,” sagði pirraður Halldór Jóhann.

Fyrir leikinn munaði aðeins þremur stigum á Fram og Stjörnunni sem er í 8. sæti deildarinnar. Halldór metur möguleika liðsins ekki mikla að ná 8 sætinu.

„Við erum í engri baráttu um að ná 8. sætinu við erum fyrst og fremst að reyna bjarga okkur tölfræðilega frá falli ég sé þetta þannig þó mér sýnist einhverjir leikmenn hjá mér vera halda því fram að við getum náð 8. sætinu en ef þeir ætla spila svona höfum við ekkert í úrslitakeppnina að gera."

Í byrjun leiks fær Ægir Hrafn rautt spjald Halldóri fannst þetta óheppilegt samstuð en treystir dómurunum fyrir þessu. Undir blálokinn á leiknum þegar Fram gat jafnað leikinn í 29-29 tapar Þorgrímur Smári boltanum, Kristján og Valdi hoppa á lausa boltann en boltinn er dæmdur HK í vil. Það sauð á Halldóri þegar sú ákvörðun var tekin.

„Mér fannst þetta vera okkar bolti og sagði Elli þjálfari HK við mig eftir leik að þetta hefði verið rangur dómur en í rauninni áttum við ekkert skilið að fá þennan bolta, dómaranir töluðu sig ekkert saman um þessa ákvörðun og skyldi ég hana ekki alveg en fyrst og fremst áttum við ekkert skilið eftir svona frammistöðu,” sagði vonsvikinn Halldór Jóhann að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira