Fótbolti

Grét þegar hann var kynntur sem leikmaður Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reinier Jesus átti mjög erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum í gær.
Reinier Jesus átti mjög erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum í gær. Getty/Mateo Villalba

Brasilíski táningurinn Reinier Jesus er að upplifa drauminn sinn eftir að spænska stórliðið Real Madrid keypti hann í janúar.

Reinier Jesus er aðeins átján ára gamall en Real Madrid keypti hann á 26 milljónir punda frá Flamengo í síðasta mánuði


Reinier Jesus lék bara sinn fyrsta leik með aðalliði Flamengo 31. júlí í fyrra en var í gær kynntur sem nýr leikmaður Real Madrid. Strákurinn réð ekki við tilfinningarnar nú þegar æskudraumur hans var að rætast.

Florentino Perez, forseti Real Madrid, mætti með Reinier Jesus á blaðamannafund í gær og kynnti nýjasta liðsmanninn.

„Ég vil verða hluti af sögu þessa frábæra félags. Þetta er mjög ánægjulegur dagur fyrir mig því ég er að upplifa æskudrauminn minn,“ sagði Reinier Jesus.

Reinier Jesus gat ekki ráðið við sig og grét af gleði á kynningunni. Foreldrarnir hans táruðust líka út í sal.


Reinier Jesus spilar sem sóknartengiliður og er þriðji ungi Brasilíumaðurinn sem kemur til Real Madrid á síðustu tveimur árum á eftir þeim Vinicius Junior og Rodrygo.

„Það er okkar þráhyggja að leita af leikmönnum sem geta orðið stórstjörnur morgundagsins. Í dag bjóðum við velkominn leikmann sem er kannski bara nýorðinn átján ára gamall en hefur þegar unnið Copa Libertadores titilinn með Flamengo sem er eitt stærsta félag heims,“ sagði Florentino Perez.

„Um leið og við byggjum besta leikvanginn á 21. öldinni þá er það skylda okkar að byggja upp framtíðarlið. Það er aftur á móti ekki auðvelt að finna þessa hæfileikaríku menn sem geta orðið Real Madrid goðsagnir,“ sagði Perez.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.