Viðskipti innlent

Stjórn­völd hækki há­mark tekju­tengdra at­vinnu­leysis­bóta

Atli Ísleifsson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður BHM. Vísir/Vilhelm

BHM hefur skorað á stjórnvöld að hækka hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta og lengja tímabil tekjutengingar þannig að bæta megi afkomuöryggi fólks sem misst hafi vinnuna vegna samdráttar af völdum kórónuveirufaraldursins.

Í tilkynningu frá bandalaginu segir nauðsynlegt sé að grunnupphæð atvinnuleysisbóta verði hækkuð, þar sem venjulegar fullar atvinnuleysisbætur séu nú 289.510 krónur.

„Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta er nú 456.404 kr. á mánuði en réttur til tekjutengingar atvinnuleysisbóta gildir í 3 mánuði samtals frá upphafi bótatímabils. BHM skorar á stjórnvöld að hækka þetta hámark og lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta í 6 mánuði til að bæta afkomuöryggi atvinnulausra á næstu misserum.”

Gert kleift að stunda nám

Bandalagið telur sömuleiðis að mikilvægt sé að atvinnuleitendum verði gert kleift að stunda nám á næstu misserum án þess að það skerði rétt þeirra til atvinnuleysisbóta. 

Einnig sé brýnt að stjórnvöld grípi til sértækra aðgerða til að tryggja listafólki framfærslu en faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafi kippt fótunum undan afkomu þessa hóps.

4.500 háskólamenntaðir án vinnu

Bent er á að meira en 4.500 háskólamenntaðir einstaklingar séu án atvinnu eða um 85 prósent fleiri en í kjölfar efnahagshrunsins árið 2009.

„Háskólamenntað fólk sem verður fyrir því að missa vinnuna um þessar mundir verður fyrir miklu fjárhagslegu áfalli, samkvæmt útreikningum BHM. Sé litið á einfaldan samanburð milli meðaltals heildarlauna í starfi og atvinnuleysisbóta má sjá að háskólamenntaður sérfræðingur sem horfir fram á atvinnuleysi í eitt ár tapar um 335 þúsund krónum í ráðstöfunartekjur að meðaltali á mánuði við að missa vinnuna. Jafngildir það um um 55% tekjuskerðingu að meðaltali á ársgrundvelli,” segir í tilkynningunni frá BHM.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×