Enski boltinn

Fimmti mánuður tímabilsins þar sem Klopp er valinn bestur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp hefur unnið verðlaunin í fimm af sex mánuðum tímabilsins.
Jürgen Klopp hefur unnið verðlaunin í fimm af sex mánuðum tímabilsins. Getty/ Matthew Ashton

Jürgen Klopp vinnur alla leiki í ensku úrvalsdeildinni þessi misserin og hann raðar einnig inn verðlaunum sem besti knattspyrnustjóri mánaðarins.

Klopp var í dag valinn besti knattspyrnustjóri janúarmánaðar en þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem hann fær þessi verðlaun.

Auk þess var Klopp einnig valinn besti stjórinn í ágúst og september og er því fyrsti knattspyrnustjórinn sem er vinnur þessi verðlaun fimm sinnum á einu tímabili.

Pep Guardiola átti metið en hann var fjórum sinnum kosinn besti knattspyrnustjóri mánaðarins tímabilið 2017 til 2018.



Frank Lampard var kosinn sá besti í október en annars hefur Klopp unnið verðlaunin.

Liverpool liðið vann alla leiki sína í janúar og hefur alls unnið fimmtán deildarleiki í röð.

Liverpool vann bæði Tottenham Hotspur og Manchester United í janúar og endaði mánuðinn með 22 stiga forystu á toppi deildarinnar.

Jürgen Klopp hefur alls verið kosinn besti stjóri mánaðarins átta sinnum á ferlinum en aðeins þeir Sir Alex Ferguson, Arsene Wenger og David Moyes hafa fengið þau oftar.

Aðrir sem komu til greina að þesu sinni voru Pep Guardiola hjá Manchester City, Ralph Hasenhuttl hjá Southampton og Nigel Pearson hjá Watford.



Bestu knattspyrnustjórar mánaðanna á 2019-20 tímabilinu:

Ágúst: Jürgen Klopp (Liverpool)

September: Jürgen Klopp (Liverpool)

Október: Frank Lampard (Chelsea)

Nóvember: Jürgen Klopp (Liverpool)

Desember: Jürgen Klopp (Liverpool)

Janúar: Jürgen Klopp (Liverpool)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×