Viðskipti innlent

Fresta hlutafjárútboðinu með fyrirvara um nýja heimild

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Heimild sem hluthafar veittu Icelandair til aukningar hlutafjár síðastliðinn maí rennur út 1. september næstkomandi.
Heimild sem hluthafar veittu Icelandair til aukningar hlutafjár síðastliðinn maí rennur út 1. september næstkomandi. Vísir/Vilhelm

Tímalína fyrirhugaðs hlutafjárútboðs Icelandair hefur verið uppfærð, að því er fram kemur í tilkynningu frá upplýsingafulltrúa félagsins. Stefnt er að því að útboðið fari fram í september. Þó er gerður sá fyrirvari að hluthafar samþykki að framlengja heimild félagsins til hlutafjáraukningar, en heimild sem hluthafar veittu félaginu 22. maí síðastliðinn rennur út 1. september. Því mun félagið boða til nýs hluthafafundar á næstu dögum.

Samkvæmt tilkynningu félagsins er gert ráð fyrir því að tillaga verði lögð fyrir hluthafafund sem felur í sér að stjórn félagsins verði heimilt að ákveða að hinum nýju hlutum í félaginu fylgi áskriftarréttindi (e. warrant) sem samsvara allt að 25% af skráningu nýrra hluta í fyrirhuguðu útboði. Slík réttindi yrði heimilt að nýta í einu lagi eða í skrefum á allt að tveggja ára tímabili, samkvæmt nánari skilmálum sem stjórn félagsins ákveður.

„Icelandair Group stefnir að því að selja nýja hluti fyrir 20 milljarða króna að nafnverði á genginu 1 króna á hlut. Komi til umframeftirspurnar í hlutafjárútboðinu, myndi stjórn félagsins hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að 3 milljarða þannig að stærð útboðsins yrði að hámarki 23 milljarðar króna,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að viðræður við íslensk stjórnvöld um lánalínu með ríkisábyrgð, í samvinnu við Íslandsbanka og Landsbankann, séu á lokastigi. Með fyrirvara um samþykki stjórnvalda fyrir slíkri lánalínu geri félagið þannig ráð fyrir að birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir mögulega fjárfesta og þátttakendur hlutafjárútboðsins á næstu dögum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×