Skoðun

Sauma­klúbburinn er dáinn

Ragnheiður Gunnarsdóttir skrifar

Ég sinnti tæplega níræðri konu á Landakoti nýlega. Hún var mjög ern og vel á sig komin nema sjónin sem var döpur og hafði valdið því að hún datt um ójöfnu á gangstétt og lærbrotnaði. Hún hafði verið á leiðinni heim úr búðinni en þangað gekk hún flesta daga til að halda sér gangandi eins og hún orðaði það. Hún var ekkja til margra ára, átti nokkur börn, það elsta orðið eldri borgari eins og hún sjálf. Eins og gengur var fjölskyldan hennar á kafi í vinnu, sinnti áhugamálum og passaði barnabörn og barnabarnabörn þess á milli. Þau vissu öll að hún væri duglega og heilsuhraust eftir aldri, hefði átt starfsferil sem kennari, þekkti marga og verið virk í félagslífi. Fyrrverandi samstarfsfólk hafði verið duglegt að vera í sambandi við hana eftir starfslok og hún var lengi vel tekin með í alls kyns hittinga samstarfsfólksins. Sjálf hafði hún verið á 95 ára reglunni, hætt að vinna 64 ára eða fyrir um 25 árum. Hún trúði mér fyrir því að núna væru allir gömlu samkennararnir hættir að vinna, flestir orðnir heilsulausir eða dánir og enginn treysti sér til að skipuleggja eitt eða neitt. Mér fannst hún döpur og börnin hennar höfðu leitað til mín vegna þess, fannst hún eins og draga sig meira í hlé en áður. Þegar ég spurði hana hvort hún sjálf héldi að hún væri þunglynd svaraði hún “ Góða mín, ég er sátt við mitt líf og fjöldskylduna mína en mér finnst erfitt að horfa á samtíma minn hverfa, heilsuna mína, vini og samferðafólk. Þó mér þyki vænt um börnin mín og þeirra fólk þá er framtíðin þeirra en ekki mín. Þau eru ekki mín kynslóð og kynslóðir koma og fara og nú er það mín kynslóð sem er að fara. Finnst þér undarlegt að það geri mig dapra?, og veistu bara ,verst finnst mér að saumaklúbburinn er dáinn.” Við ræddum oft saman eftir þetta og ég átti samræður við börnin hennar og tvö af barnabörnunum sem voru henni nánust um að mamma þeirra og amma væri að skoða líf sitt í sátt, þyrfti skilning og hlýju en enga geðsgreiningu. Erum við að sýna tilfinningum okkar elstu borgara næga virðingu ?

Höfundur hjúkrunarfræðingur á Landakoti og hjá Efri ár – öldrunarráðgjöf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×