Erlent

Hættir við leit að kven­kyns ferða­fé­laga til tunglsins

Atli Ísleifsson skrifar
Japanski tískumógúllinn Yusaku Maezawa.
Japanski tískumógúllinn Yusaku Maezawa. Getty

Japanskur milljarðamæringur hefur hætt við áætlanir sínar um að standa fyrir sérstakri leit að kvenkyns „lífsförunaut“ til að fylgja sér í fyrstu ferð Space X umhverfis tunglið.

Tískumógúllinn Yusaku Maezawa bauð fyrr í mánuðinum öllum einhleypum konum, eldri en tuttugu ára, að sækjast eftir því að sækja viðburð þar sem honum væri ætlað að finna „rétta“ ferðafélagann. Um 28 þúsund umsóknir bárust en hinn 44 ára Maezawa greindi frá því í dag að hann hafi fengið bakþanka og hætt við leitina.

Hann stefnir enn á að fara í ferðina árið 2023, en þá án ferðafélaga. Um er ræða fyrstu ferðamannaferð Space X út í geim.

BBC segir frá því að á umsóknarsíðunni hafi verið listuð ýmis skilyrði fyrir því að sækja um, þar með talið að viðkomandi þyrfti að vera einhleyp, eldri en tuttugu ára og með áhuga á að fara út í geim. Stóð til að framleiða heimildarmynd um ferlið við að velja konuna.

Maezawa greindi svo frá því á Twitter í dag að hann væri á báðum áttum um þátttöku sína. Segir hann hugmyndina hafa verið eigingjarna af sinni hálfu. 

Nýlega var greint frá því að Maezawa hafi slitið sambandi sínu með hinni 27 ára leikkonu, Ayame Goriki. 

Greint var frá því árið 2018 að Maezawa yrði fyrsti farþegi í geimflaug Space X sem flygi í kringum tunglið. Má áætla að hann hafi greitt SpaceX dágóða summu til að verða fyrir valinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×