Handbolti

Kári Kristján: Auðvitað er yndislegt að vera hluti af þessum hóp

Smári Jökull Jónsson skrifar

„Þetta var erfitt, mjög erfitt mest allan leikinn," sagði línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson þegar hann ræddi við Henry Birgi Gunnarsson í Malmö eftir leikinn gegn Svíum í kvöld.

„Byrjunin var pínu afrit af síðasta leik en síðan náðum við að vinna okkur aftur inn. Svo er þetta bara helvítis bras og því fór sem fór."

Kári átti ágætan leik í dag og skoraði fimm mörk úr sex skotum.

„Við skulum samt ekki vera að „tjúna“ það eitthvað mikið upp. Það var bara á brattann að sækja allan leikinn. Maður er frekar tómur með einhverjar útskýringar. Þetta er sjöundi leikurinn á tólf dögum, það er ótrúlegt,“ bætti Kári við en talsverð umræða hefur verið í gegnum árin varðandi álag á leikmönnum á stórmótum.

Kári kom aftur inn í landsliðið fyrir Evrópumótið eftir nokkra fjarveru. Hann kom sterkur inn og heillaði með frammistöðu og gríðarlegri útgeislun á vellinum.

„Eftir því sem maður eldist þá setur maður hlutina aðeins meira í samhengi. Auðvitað er yndislegt að vera hluti af þessum hóp. Það er endurnýjun í gangi og við erum með unga, stóra pósta sem eiga eftir að verða gríðarlega góðir í framtíðinni. Það er ekkert launungarmál.“

„Framtíðin er björt, það er nokkuð ljóst,“ sagði Kári léttur að lokum.


Tengdar fréttir

Twitter eftir leik: Léttir fyrir Ikea

Ísland tapaði í lokaleik sínum á EM gegn Svíum í kvöld. Svíar höfðu yfirhöndina allan leikinn og lítið um jákvæðni hjá íslensku stuðningsmönnunum á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×