Körfubolti

Zion mættur í NBA og kveikti í höllinni með svaka sýningu í lokaleikhlutanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zion Williamson skoraði sautján stig í röð í fjórða leikhlutanum og allt varð vitlaust í höllinni í New Orleans. Hér skorar hann eina af átta körfum sínum í leiknum.
Zion Williamson skoraði sautján stig í röð í fjórða leikhlutanum og allt varð vitlaust í höllinni í New Orleans. Hér skorar hann eina af átta körfum sínum í leiknum. Getty/Chris Graythen/

Zion Williamson náði ekki að fagna sigri í langþráðum fyrsta leik sínum í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en sýndi hversu hann er megnugur með mögnuðum spretti í lokaleikhlutanum.

Zion Williamson var með 22 stig og 7 fráköst á 18 mínútum og hitti úr 8 af 11 skotum sínum fyrir New Orleans Pelicans þegar liðið tapaði 117-121 á heimavelli á móti San Antonio Spurs.


New Orleans Pelicans valdi Zion Williamson fyrstan í nýliðavalinu en eftir að hann meiddist á undirbúningstímabilinu þurfti liðið og stuðningsmennirnir að bíða í 43 leiki eftir að sjá hann spila.

Þegar fjórði leikhlutinn hófst var strákurinn aðeins með fimm stig og fjögur fráköst en hafði tapað boltanum fjórum sinnum. Það stefndi því í vonbrigðabyrjun.

Zion Williamson sýndi hversu hann var megnugur á svakalegum þriggja mínútna kafla þegar hann skoraði fjóra þrista og alls 17 af 22 stigum sínum í leiknum.

Zion kveikti heldur betur í höllinni og New Orleans Pelicans liðið minnkaði muninn í tvö stig, 119-117. Strákurinn var hins vegar tekinn af velli eftir þennan svaka sprett og Spurs-liðið náði að landa sigrinum með hann á bekknum því Zion kom ekki meira inn á.


LeBron James skoraði 19 af 21 stigi sínu snemma leiks þegar Los Angeles Lakers vann 100-92 sigur á New York Knicks í Madison Square Garden. Anthony Davis var stigahæstur hjá Lakers með 28 stig í öðrum leik sínum eftir að hann kom til baka eftir meiðsli.


Mjög óvænt úrslit urðu í Atlanta þegar heimamenn í Hawks, sem léku án aðalstjörnu sinnar Trae Young, unnu upp 21 stigs forskot og náðu að landa sigri á móti stórliði Los Angeles Clippers. John Collins var með 33 stig fyrir Atlanta Hawks liðið en Clippers lék án þeirra Kawhi Leonard, Paul George og Patrick Beverly.

Pascal Siakam var með 18 stig og 15 fráköst og Fred VanVleet skoraði 22 stig þegar meistararnir í Toronto Raptors unnu 107-95 sigur á Philadelphia 76ers. Þetta var fimmti sigur Toronto í röð.

 


Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:
Detroit Pistons-Sacramento Kings 127-106
Orlando Magic-Oklahoma City Thunder 114-120
Toronto Raptors-Philadelphia 76ers 107-95
Atlanta Hawks-Los Angeles Clippers  102-95
Boston Celtics-Memphis Grizzlies 119-95
Miami Heat-Washington Wizards 134-129
New York Knicks-Los Angeles Lakers 92-100
Chicago Bulls-Minnesota Timberwolves 117-110
Houston Rockets-Denver Nuggets 121-105
Phoenix Suns-Indiana Pacers 87-112
New Orleans Pelicans-San Antonio Spurs 117-121
Golden State Warriors-Utah Jazz 96-129

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.