Körfubolti

Guggnuðum á pressunni

Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke skrifar
Falur fór ekkert í felur með það að Fjölnir voru slakir í síðari hálfleik.
Falur fór ekkert í felur með það að Fjölnir voru slakir í síðari hálfleik. Vísir/Bára

„Við vorum alltof linir. Þeir settu smá pressu á okkur sem varð til þess að sóknarleikurinn varð illa skipulagður. Við fórum að gera hluti undir pressu og töpum boltanum átta sinnum í þriðja leikhluta. Það er alveg fáránlega mikið. Við gugnuðum undan pressunni, því miður“ sagði Falur Harðarson, þjálfari Fjölnis, eftir 83-94 tap gegn Haukum á heimavelli í kvöld.

Fjölnir leiddi með tíu stigum í hálfleik en Haukar unnu þriðja leikhlutann með átján stigum.

Af hverju varð þessi viðsnúningur?

„Við höndluðum ekki pressuna ef það er hægt að kalla þetta pressu. Jú þeir voru að setja pressu á okkur 75% vallarins. Fyrir mér eigum við að koma boltanum yfir miðju og taka hann þeim megin upp og setja upp í sókn. Við fórum yfir miðju og urðum alltof stressaðir þegar þangað var komið, það vantar að stjórna leiknum betur.“

Falur breytti um varnarafbrigði undir restina og sagði hann það ekki hafa tekist eins og hann vonaðist eftir. Haukar voru að taka mikið af sóknarfráköstum í leiknum sem Falur vildi koma í veg fyrir í restina. Falur var næst spurður út í hvort það væri eitthvað jákvætt sem hann gæti tekið úr leiknum.

„Fyrri hálfleikurinn var flottur við náðum mest fjórtán stiga forskoti og vorum tíu stigum yfir í hálfleik. Ég hafði vonað að forskotið myndi duga lengur en því miður er þetta búið að vera svona hjá okkur. Við áttum þennan fína leik gegn Keflavík í bikarnum – það var skammgóður vermir.“

Falur var að lokum spurður hvort það væri enn von. Hann sagði að hann og sínir menn yrðu að halda áfram, það væri enn von og það þýddi ekkert að hætta núna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×