Körfubolti

Ingi Þór: Virkilega sæt stig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Inga hafa unnið tvo leiki í röð.
Strákarnir hans Inga hafa unnið tvo leiki í röð. vísir/bára

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, var afar sáttur með sigurinn á Þór í Þorlákshöfn, 74-76, í kvöld. Leikurinn var í járnum undir lokin en KR-ingar gerðu nóg til að vinna.

„Jón Arnór Stefánsson steig fáránlega vel upp fyrir okkur og tók að sér leikstjórnandahlutverkið. Við vorum búnir að vera sjálfum okkur verstir með því að tapa boltanum og þeir skoruðu mikið eftir það,“ sagði Ingi eftir leik.

„Við náðum að stoppa í vörninni undir lokin gerði það að verkum að við unnum þennan leik.“

KR tapaði boltanum 20 sinnum í leiknum og Þór skoraði 23 stig eftir mistök gestanna. Ingi kvaðst sáttur með vörn KR-inga þegar þeir náðu að stilla upp.

„Sérstaklega í byrjun leiks. Við vorum mjög ákveðnir. Svo var smá hringl á okkur út af villuvandræðum. Ég var þokkalega sáttur og sá hluti sem ég var mjög hrifinn af,“ sagði Ingi.

„Við byrjuðum leikinn af krafti og vorum einbeittir, eitthvað sem hefur vantað. Við ætlum að bæta í og gera enn betur.“

Ingi hafði eitt og annað við frammistöðu dómara leiksins að athuga.

„Því miður var hún ekki nógu góð. En það var á báða bóga og við pirruðum okkur meira á því,“ sagði Ingi.

„Ég er bara ánægðastur með að vinna og þetta voru virkilega sæt stig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×