Skoðun

Framkvæmdin var byggð á sandi

Hópur bæjarfulltrúa Viðreisnar skrifar

Bæjarfulltrúar Viðreisnar á höfuðborgarsvæðinu lögðu til á haustmánuðum að skipuð yrði neyðarstjórn sem færi með stjórn Sorpu eftir að í ljós kom að kostnaður við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar var verulega vanáætlaður, mistök sem kosta skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu hátt á annan milljarð. Í nýbirtri skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkur birtist áfellisdómur yfir stjórnun Sorpu sem staðfestir vandann sem við greindum þá.

 

Þó svo að upplýsingagjöf til stjórnar hafi ekki verið fullnægjandi og framkvæmdastjóri beri þar mikla ábyrgð, þá kemur einnig fram í skýrslunni að stjórn hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu og að stjórnarformaður og stjórnarmenn hefðu átt að hafa frumkvæði að því að afla upplýsinga. Í stjórn Sorpu sitja þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokks, tveir fulltrúar Framsóknarflokks og einn fulltrúi Vinstri grænna.

 

Einnig kemur fram í skýrslu Innri endurskoðunar gagnrýni á skort á eftirliti stýrihóps eigenda en eigendavettvangur er skipaður fimm bæjarstjórum Sjálfstæðisflokks og einum borgarstjóra Samfylkingar.

 

Það er ljóst hvar ábyrgðin liggur. Sjálfstæðisflokkurinn, með nánast alla fulltrúa eigendavettvangs og helming stjórnar Sorpu getur ekki vikið sér undan ábyrgð á þessum alvarlegu mistökum frekar en Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn. Oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík væri því nær að hafa samband við sína flokksfélaga til að viðra athugasemdir sínar enda hafa þeir frá árinu 2013 skipað annað hvort helming stjórnar Sorpu eða meirihluta, rétt eins og þeir eru með 5 af 6 fulltrúum á eigendavettvangi Sorpu.

 

Bæjarfulltrúar Viðreisnar taka undir með niðurstöðu Innri endurskoðunar um að lög um skipan opinberra framkvæmda eigi ætíð að vera höfð til hliðsjónar við stórar framkvæmdir á vegum byggðasamlags í eigu sveitarfélaga.

 

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hljóta að þurfa að bregðast við þessari skýrslu með nýjum og bættum vinnubrögðum fyrirtækja í þeirra eigu sem byggja á gagnsæi og tryggja almannahagsmuni íbúanna.

Einar Þorvarðarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Kópavogi

Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði

Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi

Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Garðabæ

Valdimar Birgisson, bæjarfulltrúi Viðreisnar í Mosfellsbæ


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.