Körfubolti

Þrír KR-ingar mega ekki spila á Akureyri í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson hefur misst af leikjum vegna meiðsla en í kvöld tekur hann út síðbúið leikbann.
Jón Arnór Stefánsson hefur misst af leikjum vegna meiðsla en í kvöld tekur hann út síðbúið leikbann. Vísir/Bára

KR-liðið verður án þriggja leikmanna í leik sínum á móti Þór Akureyri í kvöld en þetta er frestaður leikur frá því fyrir áramót.

Leikmennirnir eru Króatinn Dino Cinac, fyrirliðinn Jón Arnór Stefánsson og Eyjólfur Ásberg Halldórsson.

Leikmennirnir eru þó ekki meiddir heldur mega þeir ekki spila þennan leik.

Ástæðan er sú að þeir voru ekki löglegir þegar leikurinn átti upprunalega að fara fram sem var 19. desember síðastliðinn.

Dino Cinac og Eyjólfur Ásberg Halldórsson voru þá ekki komnir með leikheimild en þeir gengu til liðs við Vesturbæjarfélagið í janúar.

Jón Arnór Stefánsson var vissulega með leikheimild en hann átti hins vegar að taka út leikbann í leiknum eftir að hann var rekinn út úr húsi í bikarleik í Grindavík. Leikbann Jóns Arnórs færðist ekki á milli leikja.

Dino Cinac er með 12,8 stig og 6,3 fráköst að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum sínum með KR.

Jón Arnór er með 7,6 stig, 2,8 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali á leiktíðinni.

Eyjólfur Ásberg Halldórsson hefur skorað 9 stig í fyrstu fjórum leikjum sínum með KR þar af fimm þeirra í fyrsta leiknum á móti Grindavík.

Leikur Þórs og KR hefst klukkan 19.15 á Akureyri og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Eftir útsendinguna frá leiknum verður sýnd heimildarmynd um Kobe Bryant. Heimildarmyndin heitir „Kobe Bryant - The Interview“ og þar ræðir Ahmad Rashad við hann um ferilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×