Körfubolti

Haukar burstuðu Breiða­blik og spennu­sigrar hjá Snæ­fell og KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
KR vann öflugan sigur í Borgarnesi í kvöld.
KR vann öflugan sigur í Borgarnesi í kvöld. vísir/bára

Haukar, KR og Snæfell unnu sína leiki í Dominos-deild kvenna í kvöld er 18. umferðin fór fram. Leikur Vals og Keflavíkur er nú í gangi.

Haukar eru í 4. sætinu með 24 stig, líkt og Keflavík sem leikur nú við Val, eftir stórsigur á Blikum, 79-42.

Haukarnir lögðu grunninn að sigrinum. Blikarnir skoruðu einungis sjö stig í fyrsta leikhlutanum og Haukarnir leiddu 28-7 eftir hann. Eftirleikurinn auðveldur.

Randi Keonsha Brown skoraði 30 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar í liði Hauka. Lovísa Björt Henningsdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir bættu við tíu stigum hvor.

Danni L Williams skoraði fimmtán stig í liði Blika sem eru í næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig.

KR hafði betur í Borgarnesi gegn heimastúlkum í Skallagrím, 77-72, eftir að allt hafi verið jafnt í hálfleik 38-38.

Leikurinn var jafn nær allan leikinn en KR-liðið var sterkari á lokakaflanum og fór í bæinn með stigin tvö.

Danielle Victoria Rodriguez skoraði 30 stig fyrir KR. Að auki tók hún fimm fráköst og gaf átta stoðsendingar. Sanja Orazovic gerði 16 stig og tók ellefu fráköst.

Emilie Sofie Hesseldal skoraði 25 stig fyrir Skallagrím og tók 14 fráköst. Keira Breeanne Robinson bætti við 21 stigi, sex fráköstum og sex stoðsendingum.

KR er í 2. sæti deildarinnar með 26 stig en Skallagrímur er í 5. sætinu með 20 stig.

Snæfell marði Grindavík á Suðurnesjunum í kvöld en lokatölur urðu 59-57 eftir að Grindavík hafi leitt í hálfleik 38-29.

Allt var jafnt er innan við ein mínúta var eftir, 57-57, en Veera Annika Pirttinen skoraði sigurkörfuna er 30 sekúndur voru eftir.

Amarah Kiyana Coleman skoraði 18 stig, tók 14 fráköst og gaf átta stoðsendingar í liði Snæfells. Emese Vida bætti við 14 stigum og 19 fráköstum.

Jordan Airess Reynolds skoraði 19 stig og tók 11 fráköst í liði Grindavíkur sem og að gefa sjö stoðsendingar.

Snæfell er með tólf stig í sjötta sætinu en Grindavík er á botninum með tvö stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×