Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Þór Ak. 93-94 | Motley tryggði Þór sigur

Ívar Hallmundarson skrifar
VÍSIR/BÁRA

Fjölnir tók á móti Þór Akureyri í fallbaráttuslag í Grafarvogi í kvöld. Liðin voru í tveimur neðstu sætunum fyrir leikinn og því mikið í húfi fyrir bæði lið.

Eftir æsispennandi lokamínútur fóru Akureyringar með eins stigs sigur af hólmi, 94-93.

Þórsarar frá Akureyri byrjuðu leikinn töluvert betur og voru búnir að setja niður 20 stig eftir einungis fjórar mínútur, staðan var þá orðin 20-9.

Fjölnir tóku leikhlé og náðu að hægja á sóknarleik Þórs og staðan eftir fyrsta leikhluta var 16-26, gestunum frá Akureyri í vil.

Gestirnir byrjuðu annan leikhluta betur og komust í 18 stiga forystu, 38-20. Þá tóku Fjölnir leikhlé og varð algjör viðsnúningur á leiknum. Heimamenn minnkuðu muninn í 5 stig, 38-43, og náðu síðan forystunni fyrir hálfleik, 52-47.

Viktor Moses fór á kostum í fyrri hálfleik og var með 13 stig, 9 fráköst og 2 frábærar vörslur.

Þriðji leikhluti var jafn og spennandi og liðin skiptust mikið á forystu. Hansel Suarez hélt gestunum inni í leiknum og setti niður þrjú þriggja stiga skot snemma í leikhlutanum.

Fjölnismenn náðu síðan að fikra sig aðeins frá Þórsurum og voru 7 stigum yfir, 78-71, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Þórsarar náðu aftur forystunni þegar 6 mínútur voru eftir af leiknum, þar var Hansel Suarez enn og aftur á ferð og staðan orðin 80-81 fyrir gestunum. Orri Hilmarsson kom Fjölni aftur yfir með þriggja stiga skoti, staðan þá 85-84.

Liðin skiptust síðan á að setja niður þriggja stiga skot en þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum komust heimamenn 4 stigum yfir, staðan þá 93-89 og Fjölnir í bílstjórasætinu.

Fjölnismenn töpuðu boltanum klaufalega þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum og það nýtti Hansel Suarez sér og minnkaði muninn í eitt stig.

Í næstu sókn töpuðu Fjölnir boltanum aftur þegar 10 sekúndur voru eftir á klukkunni. Þórsarar fengu boltann og gátu skorað sigurkörfuna. Terrence Motley keyrði inn í teig Fjölnis, hitti boltanum ekki í körfunni í fyrstu tilraun en náði sjálfur frákastinu og skoraði þegar 0,2 sekúndur voru eftir af leiknum.

Ótrúlegur endir á þessum spennumikla leik og Akureyringar fóru með mikilvægan sigur af hólmi.

Af hverju vann Þór?

Þessi leikur hefði getað dottið báðum megin en ætla einfaldasta skýringin sé ekki sú að Fjölnir hafi hreinlega kastað leiknum frá sér. Fjölnir náðu yfirhöndinni um miðjan leik eftir slæma byrjun en náðu aldrei að stinga Þórsara af og á mikilvægustu augnablikum leiksins féllu þeir á prófinu. Þeir töpuðu boltanum tvisvar á síðustu 30 sekúndum leiksins og Þór nýttu sér það og skoruðu í bæði skiptin og tryggðu sér sigur.

Bestur í kvöld

Hansel Suarez var mikilvægasti hlekkur sigurliðsins. Hann setti niður körfur þegar á þurfti að halda, var með 25 stig og þar af fjórar þriggja stiga körfur. Hjá tapliðinu var Viktor Moses allt í öllu, hann tók 19 fráköst í heildina, þar af 8 sóknarfráköst, varði auk þess 4 bolta og skoraði 16 stig.

Hvað gerist næst?

Á mánudaginn taka Þórsarar á móti sexföldum Íslandsmeisturum KR fyrir norðan en með sigri í þeim leik geta þeir jafnað Val að stigum og komið sér úr fallsæti. Fjölnir mun hinsvegar mæta Íslandsmeisturunum í Frostaskjólinu næsta fimmtudag, virkilega erfiður leikur fyrir Fjölni sem hafa hingað til aðeins unnið einn leik.

Falur: Þetta er bara sorglegt

Falur Jóhannesson þjálfari Fjölnis var virkilega svekktur með úrslitin í leiknum:

„Þetta er bara ný tegund af svekkelsi, ég bara trúi því ekki að við getum ekki klárað leiki. Þetta er í annað skiptið í vetur sem við hendum frá okkur leik, það er ekki boðlegt.“

„Við töpuðum boltanum í tveimur sóknum af síðustu þremur sem er auðvitað glatað og á ekki að gerast í þessari deild. Við eigum að geta sett upp leikkerfi og klárað svona leiki.“

Fjölnir byrjaði leikinn illa en náði að snúa við taflinu um miðbik annars leikhluta, spurður út í hvað hefði gengið upp þá sagði Falur:

„Við skiptum um vörn og þetta er bara búið að vera saga tímabilsins. Við vorum með þennan leik, byrjuðum illa og náðum leiknum aftur og vorum með stjórn á honum. Svo er þetta bara basl í seinni hálfleik, erum að klikka á opnum skotum og henda boltanum frá okkur, þetta er bara sorglegt.“

Falur segir úrslitin undanfarið leggjast þungt á hópinn:

„Það verður alltaf þyngra og þyngra í hópnum. Þetta er þyngra en það sem ég hef reynt áður, orðið rosalega erfitt, en við verðum bara að halda áfram.“

Lárus: Vorum ljónheppnir í kvöld

Lárus Jónsson gat hinsvegar andað létt eftir leikinn og gekk sáttur frá borði:

„Mér líður rosalega vel með sigurinn en við vorum ljónheppnir að sigra í kvöld. Það er bara þannig. Heppnin var með okkur og Fjölnir gat alveg eins unnið þennan leik.“

Þórsarar voru komnir með gott forskot snemma í leiknum en misstu það niður fyrir hálfleik:

„Þeir skiptu yfir í svæðisvörn og þá ákváðum við að hætta að spila vörn. Þeir skora rúm 30 stig í öðrum leikhluta, við skoruðum alveg nóg til að halda sjó en þeir skoruðu of mikið.

Varnarleikurinn var lélegur í öðrum leikhluta og þar voru Fjölnismenn komnir með yfirhöndina í leiknum og síðan var þetta svoldið fram og til baka en samt fannst mér þetta vera meira Fjölnisleikur heldur en Þórsleikur.“

„,Við vorum bara heppnir og náðum að stela boltanum í lokin. Við vorum staðráðnir í að selja okkur dýrt í þessum leik og þessi leikur var bara úrslitaleikur fyrir okkur eins og kannski allir leikir sem eru framundan hjá okkur í deildinni.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira