Umfjöllun og viðtöl: Njarð­vík - Kefla­vík 85-97 | Keflvíkingar á toppinn

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Hörður stýrði leik Keflvíkinga vel í kvöld
Hörður stýrði leik Keflvíkinga vel í kvöld vísir/bára

Það var gríðarleg stemmning í kvöld er nágrannaliðin Njarðvík og Keflavík mættust á heimavelli þess fyrrnefnda, Njarðtaks-gryfjunni. Leikurinn í kvöld var til minningar Örlygs Sturlusonar sem lést á þessum degi fyrir tuttugu árum síðan.

Allur aðgangseyrir í kvöld rann í minningarsjóð Ölla og borguðu leikmenn sig inn á leikinn. Frábært framtak og það söfnuðust um ein og hálf milljón krónur sem rann beint til sjóðsins.

En að leiknum, sem var góð skemmtun, sérstaklega í fyrri hálfleik. Khalil Ahmad, leikmaður Keflavíkur var sjóðheitur í fyrsta leikhluta og skoraði fimm þriggja stiga körfur. Njarðvíkingarnir áttu einnig góðan leik en það voru Keflvíkingar sem leiddu að loknum fyrsta leikhluta með fjórum stigum.

Jafnt var á með liðunum í öðrum leikhlutanum og skiptust liðin á að skora. Keflvíkingar áttu síðasta orðið í fyrri hálfleik og leiddu með fimm stigum er leikmenn gengu í búningsklefann.

Það voru svo Keflvíkingar sem voru töluvert sterkari í þriðja leikhluta og náðu mest fimmtán stiga forystu og var það ekki fyrr en í upphafi fjórða leikhluta sem Njarðvíkingar náðu að minnka muninn að einhverju viti. En þá tóku Keflvíkingar við sér aftur og spiluðu frábærlega síðustu mínútur leiksins. Lokatölur 97-85, Keflvíkingum í vil

Af hverju vann Keflavík?

Heilt yfir voru Keflvíkingar betri í leiknum, og lang oftast skilar það sér í sigri. En Njarðvíkingar áttu góðar rispur inn á milli. Hins vegar líta Keflvíkingar ofboðslega vel út og eru til alls líklegir.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Keflvíkingum var Khalil stigahæstur með 31 stig en hann var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði sjö þriggja stiga körfur, þar af fimm í fyrsta leikhluta. Þá var Dominykas Milka öflugur að vanda og skoraði hann 17 stig og tók 13 fráköst.

Chaz Williams var bestur í liði Njarðvíkinga og skoraði hann 36 stig. Þá var Aurimas Majauskas flottur. Maciej Baginski átti góðan fyrri hálfleik en það dró af honum í seinni hálfleik.

Hvað gekk illa?

Njarðvíkingar mættu ekki nægilega góðir til leiks í seinni hálfleik og Keflvíkingar náðu fljótlega fimmtán stiga forystu. Í kjölfarið af því voru Njarðvíkingar í eltingarleik sem er aldrei ákjósanlegt.

Hvað gerist næst?

Það verða tveir stórleikir hjá Reykjanesbæjarliðunum í næstu umferð. Njarðvíkingar fá nágranna sína úr Grindavík í heimsókn og þá mætast toppliðin Keflavík og Stjarnan í Sláturhúsi þeirra Keflvíkinga.

 

Hjalti Vilhjálmsson: Við spiluðum fantavel í seinni hálfleik

Það var sigurreifur Hjalti Vilhjálmsson sem mætti í viðtal að loknum leik Keflavíkur og Njarðvíkur en hans menn í Keflavík báru sigur af hólmi.

„Við spiluðum fantavel í seinni hálfleik. Við vorum ekki nægilega góðir varnarlega í fyrri hálfleik en við breyttum aðeins varnarleiknum í hálfleik og það svínvirkaði.

Það vakti athygli að Keflvíkingar byrjuðu í svæðisvörn í kvöld.

„Við byrjuðum í svæði í báðum hálfleikum og gekk það vel en þeir hittu samt úr sínum skotum. En við svöruðum oftast til baka.“

Keflvíkingar voru feikiöflugir í þriðja leikhluta og seinni hluta lokaleikhlutans.

„Við stjórnuðum leiknum vel í seinni hálfleik en við vissum að þeir kæmu til baka, þeir eru fanta góðir.“

 

Einar Árni Jóhannsson: Allur leikurinn var erfiður

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur var að vonum súr á svip eftir tap sinna manna á heimavelli gegn Keflvíkingum í kvöld.

„Allur leikurinn var erfiður. Þeir hitta gríðarlega vel. Við lentum í vandræðum varnarlega, en það var margt fínt sóknarlega. Khalil Ahmad var að setja niður gríðarlega erfið skot og hinir fylgdu í kjölfarið. Við vorum að fá góð skot sem voru ekki að detta í seinni hálfleik.“

Chaz Williams, bandaríski leikmaður Njarðvíkur átti frábæran leik í kvöld og skoraði 36 stig.

„Chaz átti virkilega góðan leik en við hefðum þurft að fá framlag úr fleiri áttum.“

Nýjasti leikmaður Njarðvíkur, Aurimas Majauskas átti einnig flottan leik í kvöld

„Þetta er flottur strákur. Hann er búinn að vera fárveikur síðustu tvo daga en hann átti flottan leik. Hef fulla trú á því að hann eigi eftir að styrkja liðið enn frekar.“

Einar segist vera ánægður með hópinn sem hann er með í höndunum en árið hefur hins vegar ekki byrjað vel hjá Njarðvíkingum, þeir hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum.

„Ég er ánægður með hópinn en við erum ekki ánægðir að tapa þessum leik. Það er hellingur eftir af mótinu.“

 

Hörður Axel Vilhjálmsson: Við erum orðnir hungraðir

„Fyrst til að byrja með langar mig að þakka Njarðvík fyrir frábæra umgjörð ásamt Stöð 2 Sport. Að heiðra minningu Ölla svona er frábært,“ sagði sigurreifur Hörður Axel eftir sigur Keflvíkinga gegn nágrönnum sínum í Njarðvík í kvöld. Leikurinn í kvöld var til heiðurs Örlygs heitins Sturlussonar sem lést á þessum degi fyrir tuttugu árum.

Nokkuð jafnt var á liðunum í fyrri hálfleik en Keflvíkingar voru hins vegar lungað af leiknum með forystu.

„Mér fannst við skrefinu á undan allan leikinn en misstum aðeins dampinn í upphafi fjórða og Njarðvíkingar minnkuðu muninn.“

Keflvíkingar áttu hins vegar virkilega sterkar lokamínútur í leiknum og það innsiglaði sterkan sigur þeirra.

„Við fundum góða taktík í lokin sem þeir áttu í bölvuðu basli með. Vörnin hjá okkur var mjög góð í kvöld.“

Keflvíkingar líta ofboðslega vel út og eru til alls líklegir í baráttunni um þann stóra í vor.

„Það er ansi langt að Keflavík gerði eitthvað að viti og við erum orðnir hungraðir. Ef allt smellur rétt erum við líklegir til afreka.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira