Enski boltinn

Man. United þrennan betri en Liverpool þrennan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford og Mason Greenwood til vinstri en Mohamed Salah og Sadio Mané til hægri.
Marcus Rashford og Mason Greenwood til vinstri en Mohamed Salah og Sadio Mané til hægri. Samsett/Getty

Mikið hefur verið látið með sóknarmenn Liverpool í allri velgengni liðsins að undanförnu en þegar markatölfræðin er skoðuð kemur í ljós að framlínuþrenna Manchester United hefur í raun gert betur en sú hjá Liverpool á þessari leiktíð.

Liverpool tekur á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni um helgina en United er eina liðið sem hefur tekið stig af toppliði Liverpool í deildinni á þessari leiktíð.

Liverpool hefur fjórtán stiga forskot og er búið að vinna 20 af 21 deildarleik sínum á leiktíðinni. Manchester United er 27 stigum neðar í töflunni með aðeins 9 sigra í 22 leikjum.

Manchester United hefur einnig skorað fjórtán mörkum færra en Liverpool liðið en það er varla hægt að kenna ungu strákunum í framlínunni um það.



Sóknarmannalína Manchester United, skipuð þeim Marcus Rashford, Anthony Martial og Mason Greenwood hefur samtals skilað 39 mörkum fyrir Manchester United í öllum keppnum á þessu tímabili.

Mason Greenwood er með 9 mörk í 27 leikjum í öllum keppnum, Anthony Martial hefur skorað 11 mörk í 22 leikjum og Marcus Rashford er síðan með 19 mörk í 30 leikjum.

Sóknartríó Liverpool, skipað þeim Mohamed Salah, Sadio Mané og Roberto Firmino, hefur alls skilað af sér 30 mörkum í öllum keppnum á þessu tímabili.

Roberto Firmino er með 7 mörk í 27 leikjum, Sadio Mané hefur skorað 13 mörk í 27 leikjum og Mohamed Salah er markahæstur þeirra með 14 mörk í 24 leikjum.

Við þetta bætist svo markaleysi framlínumanna Liverpool í leikjum sínum á móti erkifjendunum í Manchester United.

Mohamed Salah hefur hvorki skorað né lagt upp mark í fjórum deildarleikjum sínum á móti Manchester United. Sadio Mané hefur bara skorað eitt mark í fimm deildarleikjum sínum með Liverpool á móti Manchester United og Roberto Firmino hefur ekki skorað í níu deildarleikjum á móti Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×