Körfubolti

Þórir tekinn í sjónvarpsviðtal úti á gólfi eftir að hafa jafnað persónulegt met í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er að stimpla sig inn hjá Nebraska.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er að stimpla sig inn hjá Nebraska. Getty/Patrick Gorski

KR-ingurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti flottan leik með Nebraska Cornhuskers í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt.

Þórir skoraði þá 17 stig og tók 9 fráköst í 76-70 sigri á Iowa. Með þessum sautján stigum þá jafnaði Þórir persónulegt stigamet í sitt í bandaríska háskólaboltanum.

Þórir hitti úr 3 af 6 þriggja stiga skotum sínum en var ekki ánægður með að hafa klúðrað tveimur vítaskotum þegar hann var tekinn í sjónvarpsviðtal út á gólfi eftir leikinn eins og sjá má hér fyrir neðan.



Þórir hafði einu sinni áður skorað 17 stig fyrir Nebraska Cornhuskers en það var í leik á móti Indiana 13. desember síðastliðinn.

Þórir hefur hitti úr 50 prósent þriggja stiga skota sinna í síðustu þremur leikjum (6 af 12) og er með 46,7 prósent þriggja stiga nýtingu á tímabilinu.

Þórir er á sínu þriðja tímabili með Nebraska en er nú að fá sitt fyrsta alvöru tækifæri.

Þórir var þannig með 2,0 stig og 2,1 frákast að meðaltali á 12,2 mínútum í fyrra en í vetur er hann með 7,5 stig og 3,8 fráköst að meðaltali á 23,8 mínútum.

Þórir kom fyrst inn í byrjunarliðið 7. desember og hefur síðan verið með 10,6 stig að meðaltali í leik auk þess að hitta úr 48 prósent þriggja stiga skota sinna eða 15 af 31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×