Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Stjarnan 75-93 | Ekkert bras á toppliðinu í Breið­holti

Árni Jóhannsson skrifar
vísir/bára

Áður en boltanum var kastað upp í loftið í Hertz-hellinum í kvöld, fyrir viðureign ÍR og Stjörnunnar, var búist við að Stjörnumenn færu með sigur af hólmi enda efsta lið deildarinnar. Það var þó líklegast ekki búist við að þetta yrði eins auðvelt og þetta leit út fyrir að vera úr blaðamannastúkunni enda hefur Hertz-hellirinn verið einn erfiðasti útivöllur landsins um árabil.

Stjörnumenn skoruðu fyrstu níu stig leiksins og gáfu tóninn fyrir það sem koma skyldi. Leikmenn ÍR litu út á löngum köflum út fyrir að vera enn í jólafríi eða nýkomnir úr áramótateiti og virkuðu andlausir og eins og þeir hefðu enga trú á verkefninu. 

Stjörnumenn stjórnuðu algjörlega ferðinni og virtust aldrei ætla að láta af hendi forskotið sem fór mest í 27 stig og endaði í 18 stigum þegar flautan gall í lok leiks rétt fyrir klukkan níu. 

Afhverju vann Stjarnan?

Stjarnan er með betra körfuboltalið þessa stundina en ÍR og mættu þar að auki tilbúnir til leiks, staðráðnir í því að ná í stigin tvö sem voru í boði. Trú þeirra á verkefninu var líka meiri og leit út fyrir á löngum köflum að ÍR-ingar trúðu því ekki að boltinn myndi einu sinni drífa á hringinn en skotnýting þeirra var 30% utan af velli sem er ekki nógu góð. Stjörnumenn aftur á móti hittur úr 46% skota sinna sem er eðlileg nýting en þeir settu niður 60% af tveggja stiga skotum sínum í kvöld.

Hverjir voru bestir á velli?

Stjarnan fékk gott framlag frá mörgum mönnum í kvöld en lið þeirra er þannig samsett að jafnvel þó að varamenn, það sem kallað er second unit á ensku, kæmu inn á þá lækkaði það ekki gæði liðsins. Níu leikmenn komust á blað og fimm þeirra skoruðu yfir 10 stig. Besti maður vallarins var þó miðherji þeirra Urald King sem skoraði 22 stig og tók 19 fráköst sem þýddi 41 í framlag. Hann stal tveimur boltum og varði tvö skot að auki og tapaði knettinum bara einu sinni. Honum næstu var Ægir þór sem skoraði 19 stig og gaf sjö stoðsendingar en hann stýrði hraða liðsins þegar hans naut við á vellinum og keyrði hann vel upp.

Tölfræði sem vakti athygli?

Til marks um hraðann sem Stjörnumenn náðu oft á tíðum er að þeir skoruðu 26 stig úr hraðaupphlaupum. Það er einnig til marks um hversu marga menn þeir geta notað en leikmenn liðsins virka ferskir lengur í leikjum sem þýðir að hægt er að spila hraðann bolta lengur inn í leikinn.

Hvað næst?

Stjörnumenn þreyta erfiðara próf í næstu umferð en þeir taka á móti Tindastól í Garðabænum. Þar er möguleiki á að halda áfram sigurgöngunni sem telur níu leiki í röð þegar þetta er skrifað.

ÍR-ingar fara í heimsókn á Hlíðarenda og etja kappi við Valsmenn en það munar fjórum stigum á liðunum og því mikilvægt fyrir bæði lið að ná í sigur. ÍR vill ekki sogast neðar og Valsmenn vilja þrýsta sér frá rauðu línunni sem skilur liðin frá falli upp að gulu línunni sem þýðir úrslitakeppni.



Ægir Þór: Verðum að halda áfram að bæta okkur

Ægir Þór, sem var með betri mönnum vallarins í kvöld, var spurður hvort sigur hans manna á ÍR hafi verið létt verk. Hann sagði að það hafi verið síður en svo.

„Alls ekk létt verk. Það voru smá þyngsli yfir þessu og mér leið eins og þetta væri annar leikurinn á tímabilinu og það er kannski ekki skrýtið þar sem liðin eru með nýja menn og nýjar róteringar eins og hjá okkur þannig að þetta var kannski bara ágætt. Það er eitthvað til að byggja á, við eigum helling inni. Við getum hækkað þakið hjá okkur, bæði varnarlega og sóknarlega, en það tekur tíma. Það er fínt að fá marga leiki á fáum dögum þar sem hægt er að drilla hlutina inn á milli“.

Ægir var beðinn um að bera gang liðsins núna saman við tímabilið í fyrra.

„Þetta er mjög svipað og í fyrra. Við erum að vinna marga leiki í röð núna og það er eitthvað sem við höfum talað um og eitthvað sem við ætlum að læra að við séum ekki að slaka á og að við náum að bæta okkur þrátt fyrir sigrana en það er eitthvað sem við erum að vinna í. Við verðum að halda fókus og verðum að halda áfram að bæta okkur“.

Eins og fram hefur komið þá er lið Stjörnunnar vel skipað og mikill lúxus líklega að gæðin detta ekki niður þó að byrjunarliðsmenn setjist á bekkinn. Ægir var beðinn um að ræða þennan lúxus aðeins.

„Nei alls ekki. Svo lengi sem við kaupum það að fórna mínútum til að við getum spilað lengur af miklum krafti, svo lengi sem við kaupum það þá virkar þetta helvíti vel. Eins og við sáum í dag þá virkar það vel á köflum og sérstaklega varnarlega þar sem við náum stoppum eða fráköstum og erum farnir af stað í sóknina. Ef við gerum þetta þá virka róteringarnar“.

Borche: Þurfum að treysta ferlinu

„Stjarnan er náttúrlega með frábært lið og við vorum ekki tilbúnir í kvöld til að berjast við þá eins og við vorum ekki tilbúnir í bardagann gegn Njarðvík um daginn“, sagði þjálfari ÍR þegar hann var spurður út í það hvað væri að hjá hans mönnum þessa stundina.

„Við erum aftur að tapa frákastabaráttunni og á köflum sýndum við ástríðu og baráttu en það dugir ekki að gera það í 5-10 mínútur heldur þarf að gera það í 40 mínútur. Við þurfum að finna ástríðuna okkar og menn þurfa að átta sig á því að þetta er ekki auðvelt og við sýndum mikið af veikleikamerkjum og það á heimavelli og það gerir mig áhyggjufullann. Við þurfum að treysta ferlinu og þurfum að byrja upp á nýtt. Seinustu tvær æfingar voru góðar og mennirnir sýndu góða takta á æfingu og reglan er að við spilum eins og við æfum. Þegar við aukum tempóið á æfingum þá fara úrslitin af vera okkur í hag. Við þurfum að einbeita okkur að næsta leik en óskum Stjörnunni til hamingju með leikinn sem eru í góðum takti en við eru algjörlega úr takti og eiginlega ekkert meira um það að segja. Okkur þarf að ganga betur næst“.



Borche sagði eftir leikinn á móti Njarðvík að hann væri áhyggjufullur og var spurður að því hvort hann hafi séð eitthvað í kvöld sem minnkaði þær áhyggjur.



„Nei því miður. Við erum töpuðum frákastabaráttunni með 20 fráköstum og þurfum meiri baráttu undir körfunni. Við erum ekki með stóran mann undir körfunni en mínir menn þurfa að átta sig á því að það þarf að berjast meira fyrir þessu. Þetta er mikið vandamál fyrir okkur sem við þurfum að leysa. Í fyrra vorum við liðið sem tók flest fráköst en í ár erum við líklegast neðst í þeim flokki. Við þurfum bara að treysta ferlinu og þurfum að koma nýjum mönnum inn í þetta og vonandi finnum við taktinn aftur“.



Í ljósi vandræða ÍR-inga undir körfunni, þar sem þeir eru neðstir í frákastatöflunni, þá var Borche spurður hvort einhver möguleiki væri á því að ná í stóran mann undir körfuna en félagsskiptaglugginn er opinn enn þá.



„Það er ekki fyrir mig að svara því. Ég lít á alla möguleikana en starfið mitt er að gera þá sem ég er með betri í körfubolta. Ég veit að mörg lið fengu nýja menn og við fengum Robert [Kovac] inn og þurfum að koma öllum í takt. Vonandi þá finnum við lausnina en ég veit ekki hvort það sé hægt að ná í stóran mann“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira