Bíó og sjónvarp

Væntanlegt sjónvarpsefni: Ridley Scott snýr sér að litla skjánum

Heiðar Sumarliðason skrifar
Hin danska Amanda Collin leikur aðalhlutverkið í Raised by Wolves.
Hin danska Amanda Collin leikur aðalhlutverkið í Raised by Wolves.

Þó svo að Covid-19 herji á sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn af hörku og allt stopp í Hollywood, var búið að taka upp eitthvað af sjónvarpsseríum áður en pestin skall á heimsbyggðina, sem enn á eftir að sýna. Hér að neðan er samantekt á því helsta sem er væntanlegt á næstunni. Svo er spurning hvort við Íslendingar verðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sjá þetta allt saman. Það mun tíminn leiða í ljós. 

Raised By Wolves. 

Raised by Wolves er metnaðarfull þáttaröð úr smiðju Ridleys Scotts, sem framleiðir og leikstýrir fyrstu tveimur þáttunum. Hér er fjallað um tvö vélmenni, sem í kjölfar þess að Jörðin varð óbyggileg eftir styrjaldir, ala upp mennsk börn á dularfullri plánetu.  Trúarleg átök ógna þó stöðugleika nýja samfélagsins.

Sagan kemur úr hugarheimi handritshöfundarins Aaron Guzikowski, sem skrifaði m.a. handritið að Prisoners, kvikmynd Denis Villeneuve frá árinu 2013. Þess má til gamans geta að hans fyrsta verkefni var að skrifa handritið að Contraband, byggðri á Reykjavík-Rotterdam eftir Arnald Indriðason, sem Baltasar Kormákur leikstýrði. 

Af stiklu þáttanna að dæma eru engu til sparað. Það er HBO-Max sem framleiðir, en sú streymisveita er ekki enn komin til Íslands, því er spurning hvar, hvenær eða hvort við fáum að njóta þáttanna, sem virðast vera það mest spennandi þetta haustið.

Quiz.

Stöð 2 tekur bráðlega til sýningar míníseríuna sannsögulegu Quiz, sem fjallar um þegar fyrrum yfirmaður í breska hersins vann milljón pund í Who Wants to Be a Millionaire. Það gerði hann hins vegar ekki með heiðarlegum máta, og minnir Quiz töluvert á bandarísku kvikmyndina Quiz Show frá 1994, sem fjallaði um svipað mál. 

Þeir sem eru orðnir miðaldra muna mögulega eftir Ralph Fiennes í Quiz Show, sem sýnd var í Sambíóunum við Álfabakka.

Michael Sheen leikur aðalhlutverkið, en hann hefur gert það að sérgrein sinni að túlka Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Það er kanóna sem var bak við myndavélina, en Stephen Frears leikstýrði. Hann hefur leikstýrt kvikmyndum á borð við Dangerous Liaisons og The Queen. Þættirnir voru frumsýnir á Bretlandseyjum í sumar og hafa hlotið prýðilega dóma.

Away. 

Í Netflix-þáttaröðinni Away leikur Hilary Swank geimfara sem tekur að sér hættulega þriggja ára för fyrir NASA og skilur því unglingsdóttur og eiginmann sinn eftir á Jörðinni.

Rayt Panthaki og Hilary Swank skella sér út í geim.

Það liggja litlar upplýsingar fyrir um þáttaröðina og Netflix hefur aðeins sent frá sér stutta kitlu, þó svo að innan við mánuður sé í frumsýningu. Þrátt fyrir vísindaskáldskapar eindirnar sem unnið er með, gefur kitlan til kynna að hér sé um þungt drama að ræða, frekar en hreinræktaðan vísindatrylli. 

Það eru Jessica Goldberg og Andrew Hinderaker sem skrifa handritið, og áttu hugmyndina. Það helsta sem liggur eftir þau er þáttaröðin The Path, sem Hulu gerði þrjár seríur af, á árunum 2016 til 2018. Sýningar hefjast á Netflix 4. september nk.

The Salisbury Poisonings.

Stöð 2 sýnir The Salisbury Poisonings, aðra breska míníseríu sem hefur hlotið góðar viðtökur í heimalandinu. Hér er fjallað um það þegar eitrað var fyrir feðginunum Yuliu og Sergei Skripal, en Sergei var dæmdur fyrir landráð í Rússlandi, eftir að upp komst um njósnir hans fyrir Breta. 

Úr The Salisbury Poisonings.

Það er BBC One sem framleiðir þættina, en með aðalhlutverk fara Rafe Spall (Jurassic Park: Fallen Kingdom) og Anne-Marie Duff (Shameless).

Ratched. 

Hjúkrunarfræðingurinn Nurse Ratched úr skáldsögunni, og síðar kvikmyndinni og leikritinu, One Flew Over The Cucooks Nest (Gaukshreiðrið), hefur verið fólki hugleikin. Nú fær hún sína eigin þáttaröð í boði Netflix. 

Þættirnir gerast töluvert fyrir atburði Gaukshreiðursins, en það er áætlun framleiðendanna að gerðar verði þrjár þáttaraðir og sú síðasta gerist á tímabilinu sem R.P. McMurphy hrelldi Ratched, en Jack Nicholson lék hann í kvikmyndaútgáfunni frá 1975 og Pálmi Gestsson á sviði Þjóðleikhússins árið 1994.

Jack Nicholson í essinu sínu.

Sarah Paulson leikur Nurse Ratched, en hún er áhorfendum að góðu kunn úr sjónvarpsþáttum á borð við Desperate Housewives og American Horror Story, sem og kvikmyndunum 12 Years a Slave og The Post.

Höfundur þáttanna er nýliðinn Evan Romansky, en það er hinn stórtæki Ryan Murphy sem framleiðir. Netflix sýnir þættina og hægt verður að streyma þeim 18. september nk.

Lovecraft Country. 

Jordan Peele og J.J. Abrams framleiða hrollvekjuna Lovecraft Country, sem byggir á samnefndri skáldsögu Matt Ruff. Þættirnir fjalla um ungan blökkumann sem ferðast um Bandaríkin í leit að föður sínum, á sjötta áratugi síðustu aldar. Honum mæta svo ýmis yfirnáttúrulega fyrirbæri.

Það vantar ekki hryllinginn í Lovecraft Country.

Hér er unnið með arfleifð sagna hrollvekjuhöfundarins H.P Lovecraft, en hann skóp hinn svokallaða Cthulhu Mythos-heim. En Matt Ruff blandaði í bók sinni sagnheimi Lovecrafts saman við hryllilega tilveru svartra í rasískum suðurríkjum Bandaríkjanna. 

Misha Green aðlagaði þættina að sjónvarpsforminu, en hún er höfundur þáttanna Underground, sem gerðust í bandarísku borgarastyrjöldinni. Það er HBO sem framleiðir.

Woke. 

Lamorne Morris (Winston úr New Girl) leikur hér teiknimyndasagnahöfund á barmi frægðar, en óvæntir atburðir verða til þess að teiknimyndirnar lifna við í höfði hans. Woke eru gamanþættir sem byggja að miklu leyti á upplifun Keith Knight, annars höfunda þáttanna, af því að vera svartur listamaður í Bandaríkjunum. 

Lamorne Morris í hlutverki sínu í Woke.

Meðal annarra leikara eru Blake Anderson, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í Workaholics, og grínistinn T. Murph. Þættirnir eru átta talsins og er það Hulu sem lét framleiða þá. 

I´m Thinking of Ending Things. 

Ein kvikmynd fær svo að fljóta hér með, því fimm árum eftir frumsýningu kvikmyndarinnar Anomalisa, fáum við loks nýtt efni frá Charlie Kauffman, höfundi Eternal Sunshine of the Spotless Mind, Adaptation og Being John Malkovich. Kauffman leikstýrir hér eigin handriti, byggðu á skáldsögu Iain Reid.

I´m Thinking of Ending Things fjallar um ung konu sem fer ásamt kærasta sínum að heimsækja foreldra hans á afskekktu sveitabýli. Hlutirnir verða að sjálfsögðu mjög furðulegir, líkt og við er að búast frá Kauffman.

Netflix frumsýnir myndina 4. septmber nk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×