Viðskipti innlent

44 fyrir­tæki sem nýttu sér hluta­bóta­leiðina hafa endur­greitt Vinnu­mála­stofnun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fyrirtækin hafa endurgreitt Vinnumálastofnun 210 milljónir króna.
Fyrirtækin hafa endurgreitt Vinnumálastofnun 210 milljónir króna. Vísir/Hanna

Fjörutíu og fjögur fyrirtæki hafa endurgreitt Vinnumálastofnun fjármagn sem starfsmenn fyrirtækjanna fengu greitt úr opinberum sjóðum eftir að starfshlutfall þeirra var skert. Fjárhæðin nemur samtals um 210 milljónum króna. Ekki hefur verið greint frá því hvaða fyrirtæki um ræðir.

Eftir að fyrirtæki voru gagnrýnd í vor fyrir að nýta sér hlutabótaleiðina þrátt fyrir að vera vel fjárhagslega stæð gáfu fjölmörg fyrirtæki það sjálf út að bæturnar yrðu endurgreiddar. Sum fyrirtækjanna sem gáfu þetta út voru þegar búin eða höfðu í hyggju að greiða hluthöfum sínum arð á árinu.

Kjarninn greinir frá því í dag að fjörutíu og fjögur fyrirtæki sem nýttu sér hlutabótaleiðina hafi þegar greitt til baka þær fjárhæðir sem starfsmenn þeirra fengu úr opinberum sjóðum eftir að starfshlutfall þeirra var skert. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri VinnumálastofnunVísir/Egill

Hún segir það ekki liggja fyrir hvort fleiri fyrirtæki muni endurgreiða Vinnumálastofnun líkt og fyrirtækin fjörutíu og fjögur. Þá hafi þau ekki verið krafin um endurgreiðslur enda séu engar heimildir fyrir því í lögum nema eitthvað sakhæft hafi átt sér stað. Það virðist þó ekki vera tilfellið. Þá liggi ekki fyrir hvort fleiri fyrirtæki ætli að endurgreiða bæturnar.

Ríkisendurskoðun birti skýrslu í lok maí um hlutabótaleiðina og framkvæmd hennar og kom þar fram að ekki yrði séð af lögum um hlutabótaleiðina að ætlunin hafi verið að fyrirtæki í góðri fjárhagslegri stöðu myndu nýta sér leiðina.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í fréttum RÚV þann 8. maí síðastliðinn að ekki væri útilokað að farið yrði fram á að fyrirtæki endurgreiddu ríkinu ef í ljós kæmi að þau hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina án fullnægjandi skýringa.


Tengdar fréttir

Óttast að útlitið dökkni á haustmánuðum

Forstjóri Vinnumálastofnunarinnar óttast að útlitið á vinnumarkaði muni dökkna á haustmánuðum. Atvinnuleysi breyttist þó lítið milli júní og júlí.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×