Handbolti

Valur fær fyrirliða og markahæsta leikmann Selfoss

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hulda Dís Þrastardóttir leikur með Val á næsta tímabili.
Hulda Dís Þrastardóttir leikur með Val á næsta tímabili. vísir/vilhelm

Valur hefur fengið handboltakonuna Huldu Dís Þrastardóttur frá Selfossi.

Hulda hefur verið í stóru hlutverki hjá Selfossi undanfarin ár og var fyrirliði liðsins á síðasta tímabili.

Hún skoraði 116 mörk í Grill 66 deildinni og var markahæsti leikmaður Selfoss ásamt Kötlu Maríu Magnúsdóttur. Selfyssingar voru í 3. sæti þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins.

„Hulda er góður leikmaður og ekki síður frábær karakter. Hún passar því vel inn í okkar hóp enda getur hún leyst margar leikstöður,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir að Hulda skrifaði undir samning við félagið.

Hulda, sem er 22 ára, kemur úr mikilli handboltafjölskyldu á Selfossi. Eldri bróðir hennar, Örn, er þjálfari kvennaliðs Selfoss, eldri systir hennar, Hrafnhildur Hanna, leikur með ÍBV og íslenska landsliðinu og yngri bróðir hennar, Haukur, er leikmaður Kielce í Póllandi og íslenska landsliðsins.

Valur var í 2. sæti Olís-deildar kvenna þegar tímabilið var blásið af. Tímabilið 2018-19 unnu Valskonur þrefalt, urðu Íslands-, bikar- og deildarmeistarar.

Komnar:

  • Hulda Dís Þrastardóttir frá Selfossi
  • Þórey Anna Ásgeirsdóttir frá Stjörnunni
  • Mariam Eradze frá Toloun Saint-Cyr Var
  • Saga Sif Gísladóttir frá Haukum

Farnar:

  • Díana Dögg Magnúsdóttir til Sachsen Zwickau
  • Íris Björk Símonardóttir hætt
  • Sandra Erlingsdóttir til Aalborg
  • Íris Ásta Pétursdóttir ólétt
  • Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hætt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×