Viðskipti innlent

Lokuðu í miðjum faraldri og opna ekki aftur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búið er að byrgja fyrir glugga rýmisins við Hagamel þar sem Fisherman var til húsa. Þar áður var ritfangaverslunin Úlfarsfell rekin í rýminu.
Búið er að byrgja fyrir glugga rýmisins við Hagamel þar sem Fisherman var til húsa. Þar áður var ritfangaverslunin Úlfarsfell rekin í rýminu. Vísir/Stína

Fiskisjoppan Fisherman við Hagamel hefur skellt í lás til frambúðar. Staðnum var lokað vegna kórónuveirufaraldursins í vor og opnaði ekki aftur. Framkvæmdastjóri Fisherman segir um að ræða rekstrarlega ákvörðun sem skrifist algjörlega á faraldurinn.

Rekstrarumhverfi veitingastaða hefur verið einkar erfitt nú á tímum tveggja metra reglu, samkomubanns og brotthvarfs erlendra ferðamanna. Veitingamenn hafa margir þurft að loka stöðum sínum tímabundið – og sumir um ókomna tíð.

Faraldurinn hefur leikið veitingamenn í miðbænum einkar grátt, líkt og fram kom í samantekt ViðskiptaMoggans í júní. Þá hafði minnst tuttugu og átta veitingastöðum verið lokað á svæðinu vegna veirunnar.

Veiruáhrifanna gætir einnig í Vesturbænum en þar hefur fiskisjoppu Fisherman, fiskverslun og matsölustað í gamalgrónum kjarna við Hagamel, verið lokað. Staðurinn var opnaður árið 2017 og átti miklum vinsældum að fagna. 

Þannig sat hann á tímabili í öðru sæti á vef TripAdvisor yfir bestu veitingastaði í Reykjavík. Samkvæmt heimildum Vísis stendur nú til að opna annan matsölustað í rýminu sem áður hýsti Fisherman.

Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman.

Drógu sig úr harkinu

Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri Fisherman segir í samtali við Vísi að fiskisjoppunni hafi verið lokað vegna kórónuveirufaraldursins strax á vormánuðum. Ákveðið hafi verið að opna ekki aftur og leigusamningurinn framseldur.

„Við ákváðum að draga okkur úr veitingaharkinu, á þessum síðustu og verstu tímum,“ segir Elías.

„Þetta er algjörlega Covid-aðgerð vegna þess að uppistaða viðskiptavinanna var erlendir gestir. Ekki spennandi rekstrarumhverfi fyrir svona stað á þessum tímum meðan gengur vel hjá okkur í öðru.“

Með lokun fiskisjoppunnar snýr rekstur Fisherman nú alfarið að framleiðslu og sölu á fiski og tengdum vörum. Reksturinn er á tveimur stöðum; Fiskislóð í Reykjavík og á Suðureyri.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×