Viðskipti erlent

Trump segist ætla að banna Tiktok

Kjartan Kjartansson skrifar
Merki Tiktok sem Bandaríkjastjórnar skoðar nú að gera útlægt frá Bandaríkjunum.
Merki Tiktok sem Bandaríkjastjórnar skoðar nú að gera útlægt frá Bandaríkjunum. Vísir/AP

Kínverski samfélagsmiðillinn Tiktok verður bannaður í Bandaríkjunum, að sögn Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hann boðar tilskipun þess efnis, jafnvel strax í dag. Forsetanum hugnast ekki að bandarískt fyrirtæki eins og Microsoft kaupi starfsemi Tiktok í Bandaríkjunum.

Styr hefur staðið um myndbandsdeilisnjallforritið Tiktok undanfarnar vikur. Það hefur notið vaxandi vinsælda en áhyggjur af hafa verið af persónuupplýsingum notenda sem forritið safnar. Stjórnendur Tiktok hafna því að það kínverska ríkið stýri því eða fái gögn um notendur.

Trump sagði fréttamönnum í forsetaflugvél sinni í gær að ríkisstjórn hans ætlaði sér að banna miðilinn. Til þess ætlaði hann að nota neyðarheimildir eða forsetatilskipun.

„Ég hef valdið. Það verður skrifað undir þetta á morgun,“ fullyrti forsetinn í gær.

Fréttir hafa verið um áhuga bandarískra fyrirtækja eins og Microsoft á því að kaupa eða fjárfesta í Tiktok en Trump gaf lítið fyrir það, að sögn Washington Post.

„Það eru nokkrir möguleikar en að er margt að gerast, þannig að við sjáum til hvað gerist. Við erum að skoða ýmsa möguleika hvað varðar Tiktok,“ sagði forsetinn.

Tiktok tjáði sig ekki beint um hótanir Trump í gær en fyrirtækið sagðist í yfirlýsingu fullvisst um langtímastöðu sína.

Samskipti Kína og Bandaríkjanna hafa farið versnandi undanfarin misseri. Stjórn Trump hefur þrýst á önnur vestræn ríki að útiloka kínverska tæknifyrirtækið Huawei frá 5G-væðingu fjarskiptakerfa sinna. Þá ráku ríkin ræðismenn hvors annars úr landi eftir að Bandaríkjastjórn skipaði fyrst ræðismanni Kína í Houston að hafa sig á brott og vísaði til hugverkastuldar.


Tengdar fréttir

Bandaríkin íhuga að banna TikTok

Stjórnvöld í Bandaríkjunum íhuga nú að banna smáforritið TikTok í landinu, auk annarra kínverskra smáforrita.

Indverjar banna TikTok og fleiri kínversk forrit

Eftir átök milli hersveita á landamærum Kína og Indlands hefur indverska ríkisstjórnin gripið til þess ráðs að banna yfir fimmtíu kínversk smáforrit í landinu þar sem að þau gætu stofnað öryggi og fullveldi Indlands í hættu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×