Handbolti

Valsmenn sleppa við mjög langt ferðalag

Sindri Sverrisson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson gæti mætt læriföður sínum, Guðmundi Guðmundssyni.
Snorri Steinn Guðjónsson gæti mætt læriföður sínum, Guðmundi Guðmundssyni. vísir/bára/getty

Deildarmeistarar Vals gætu dregist gegn Melsungen frá Þýskalandi, liði Guðmundur Guðmundssonar landsliðsþjálfara, eða nýju liði Óðins Þórs Ríkharðssonar í Evrópudeildinni í handbolta.

Handknattleikssamband Evrópu hefur nú raðað liðunum í 1. umferð keppninnar í styrkleikaflokka, og hefur jafnframt skipt þeim upp eftir svæðum í Evrópu. Það er gert til að einfalda ferðalög og lækka kostnað hjá félögunum vegna kórónuveirukrísunnar.

Valsmenn eru í neðri styrkleikaflokki á „svæði tvö“ og eiga fyrir höndum ferðalag til Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Þýskalands eða Póllands. Þeir munu mæta einu af eftirtöldum liðum; Holstebro, Arendal, Malmö, Melsungen og Azoty-Pulawy. Hornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson gekk í raðir Holstebro í sumar frá öðru dönsku félagi, GOG.

Dregið verður í 1. umferðina 28. júlí og er áætlað að fyrri leikur hvers einvígis fari svo fram 29.-30. ágúst en seinni leikur viku síðar. Það er því rétt rúmur mánuður í að tímabilið hefjist hjá Val.

Í styrkleikaflokki Vals eru einnig Bjerringbro-Silkeborg og Skjern frá Danmörku, Haslum frá Noregi og Kristianstad frá Svíþjóð. Elvar Örn Jónsson er leikmaður Skjern og Þráinn Orri Jónsson er hjá Bjerringbro-Silkeborg, og hjá Kristianstad leika fyrirliðinn Ólafur Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.