Handbolti

Valsmenn sleppa við mjög langt ferðalag

Sindri Sverrisson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson gæti mætt læriföður sínum, Guðmundi Guðmundssyni.
Snorri Steinn Guðjónsson gæti mætt læriföður sínum, Guðmundi Guðmundssyni. vísir/bára/getty

Deildarmeistarar Vals gætu dregist gegn Melsungen frá Þýskalandi, liði Guðmundur Guðmundssonar landsliðsþjálfara, eða nýju liði Óðins Þórs Ríkharðssonar í Evrópudeildinni í handbolta.

Handknattleikssamband Evrópu hefur nú raðað liðunum í 1. umferð keppninnar í styrkleikaflokka, og hefur jafnframt skipt þeim upp eftir svæðum í Evrópu. Það er gert til að einfalda ferðalög og lækka kostnað hjá félögunum vegna kórónuveirukrísunnar.

Valsmenn eru í neðri styrkleikaflokki á „svæði tvö“ og eiga fyrir höndum ferðalag til Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Þýskalands eða Póllands. Þeir munu mæta einu af eftirtöldum liðum; Holstebro, Arendal, Malmö, Melsungen og Azoty-Pulawy. Hornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson gekk í raðir Holstebro í sumar frá öðru dönsku félagi, GOG.

Dregið verður í 1. umferðina 28. júlí og er áætlað að fyrri leikur hvers einvígis fari svo fram 29.-30. ágúst en seinni leikur viku síðar. Það er því rétt rúmur mánuður í að tímabilið hefjist hjá Val.

Í styrkleikaflokki Vals eru einnig Bjerringbro-Silkeborg og Skjern frá Danmörku, Haslum frá Noregi og Kristianstad frá Svíþjóð. Elvar Örn Jónsson er leikmaður Skjern og Þráinn Orri Jónsson er hjá Bjerringbro-Silkeborg, og hjá Kristianstad leika fyrirliðinn Ólafur Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.