Körfubolti

Martin Hermannsson á leið til Valencia á Spáni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin færir sig um set til Spánar.
Martin færir sig um set til Spánar. Mike Kireev/Getty Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson hefur samið við Valencia á Spáni eftir frábært ár með Alba Berlín í Þýskalandi. Varð Martin lands- og bikarmeistari í ár. Lék hann að meðaltali 25 mínútur í leik, skoraði 10.9 stig og gaf 4.8 stoðsendingar.

Þetta kemur fram á vefsíðunni Eurohoops þar sem segir að báðir aðilar hafi náð samkomulagi og hinn 25 ára Martin muni semja til nokkurra ára við félagið. Það á eftir að gefa út hversu langur samningurinn er. 

Martin er þriðji Íslendingurinn sem mun leika með Valencia en Tryggvi Snær Hlinason var í herbúðum liðsins frá 2017 til 2019 og þá var Jón Arnór Stefánsson hjá Valencia leiktíðina 2015-2016.

Valencia er eitt af stærstu liðum Evrópu og leikur í efstu deild á Spáni. Þá endaði í 10. sæti í EuroLeague í vetur. Það á að gera enn betur og því er Martin fenginn inn. Hann er annar leikmaðurinn sem liðið fær á skömmum tíma en Derrick Williams - sem var valinn annar í nýliðavali NBA-deildarinnar 2011 - mun einnig leika með liðinu á næstu leiktíð.

Haukur Helgi Pálsson samdi í gær við Andorra, sem leikur einnig í spænsku úrvalsdeildinni. Þá er Tryggvi Snær enn í herbúðum Zaragoza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×