Viðskipti innlent

Segja niður­greitt sumar­nám í há­skólum bitna hart á einka­reknum fræðslu­fyrir­tækjum

Atli Ísleifsson skrifar
Menntamálaráðuneytið greindi frá því í dag að skráningum í sumarnám háskólanna hafi fjölgað og hafi nú 5.100 nemendur skráð sig í slíkt nám.
Menntamálaráðuneytið greindi frá því í dag að skráningum í sumarnám háskólanna hafi fjölgað og hafi nú 5.100 nemendur skráð sig í slíkt nám. Vísir/Vilhelm

Félag atvinnurekenda telur að útfærsla stjórnvalda varðandi 500 milljóna króna stuðning við sumarnám í háskólum bitni illa á samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja. Samtökin hafa sent menntamálaráðherra erindi þar sem útfærslan er gagnrýnd, en hún er þar sögð brjóta í bága við ákvæði EES-samningsins.

Menntamálaráðuneytið greindi frá því í dag að skráningum í sumarnám háskólanna hafi fjölgað og hafi nú 5.100 nemendur skráð sig í slíkt nám. Er aðgerðum ætlað að „sporna gegn atvinnuleysi og efla virkni og menntun meðal ungs fólks og atvinnuleitenda“ á tímum faraldurs kórónuveirunnar.

Í beinni samkeppni við námskeið einkarekinna fyrirtækja

Í frétt á vef FA segir að verulegur hluti fjárhæðar sem hafi verið veittur til sumarnáms á háskólastigi renni til endur- og símenntunarstofnana háskólanna og að námskeið, sem séu utan verksviðs háskólanna eins og það sé skilgreint í lögum, séu niðurgreidd um tugi þúsunda króna.

„Viðkomandi starfsemi er í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkarekinna fræðslufyrirtækja. Nefna má sem dæmi námskeið sem alls ekki eru ætluð háskólanemum, háskólamenntuðum eða atvinnuleitendum sérstaklega, til dæmis tölvunámskeið, námskeið í samskiptaleikni, framkomu og verkefnastjórnun,“ segir í fréttinni.

Ekki hægt að keppa við þrjú þúsund króna námskeiðsgjald

Í erindi sínu til ráðherra segir FA að endurmenntunardeildir háskólanna auglýsi nú námskeið á þrjú þúsund krónur – námskeið sem kosti alla jafna kosta tugi þúsunda. 

„Það gefur auga leið að einkarekin fræðslufyrirtæki sem bjóða sambærilegt nám geta ekki með nokkru móti keppt við þessi niðurgreiddu námskeið. FA er kunnugt um að námskeið hjá slíkum fyrirtækjum hafi verið felld niður, með tilheyrandi tekjutapi, þar sem fyrirtækin sjá ekki tilgang í að keppa við þetta niðurgreidda kostaboð. 

Fyrirtækin eru eins og mörg önnur í erfiðri stöðu eftir að hafa misst viðskipti í heimsfaraldrinum og máttu sízt við því að ákvarðanir stjórnvalda stuðluðu að enn frekari tekjumissi,“ segir í erindinu og kemur fram að samtökin sjái ekki betur en að niðurgreiðslurnar brjóti í bága við EES-samninginn sem leggur bann við samkeppishamlandi ríkisstyrkjum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIM
3,22
19
499.451
BRIM
2,79
6
28.598
HAGA
2,5
24
415.834
ICESEA
0,57
2
43.063
SVN
0,48
44
195.889

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
-3,78
108
227.947
ARION
-1,37
40
408.015
MAREL
-1,28
17
313.382
SJOVA
-0,91
6
54.086
SYN
-0,7
4
8.975
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.