Viðskipti innlent

Fjögur ráðin til Nasdaq á Íslandi

Atli Ísleifsson skrifar
Kristófer Númi Hlynsson, Ástgeir Ólafsson, Brynja Þrastardóttir og Grímur Birgisson.
Kristófer Númi Hlynsson, Ástgeir Ólafsson, Brynja Þrastardóttir og Grímur Birgisson. Nasdaq

Ástgeir Ólafsson, Brynja Þrastardóttir, Grímur Birgisson og Kristófer Númi Hlynsson hafa gengið til liðs við Nasdaq á Íslandi á undanförnum vikum – hjá Nasdaq Iceland (Kauphöllinni) og Nasdaq CSD á Íslandi (Nasdaq verðbréfamiðstöð).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nasdaq á Íslandi.

„Ástgeir Ólafsson hefur hafið störf hjá Kauphöllinni á sviði ráðgjafar, sölu og þjónustu við viðskiptavini. Ástgeir er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann starfaði áður sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu, en hefur auk þess starfað sem sérfræðingur á fjármálasviði Arctic Adventures og sinnt dæmatímakennslu í Háskólanum í Reykjavík.

Brynja Þrastardóttir hefur hafið störf í eftirliti Kauphallarinnar. Brynja er við það að ljúka tveimur mastersgráðum frá Háskóla Íslands, annarri í fjármálahagfræði og hinni í alþjóðasamskiptum. Hún lauk B.Sc. í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá sama skóla árið 2018. Meðfram námi var Brynja flugfreyja hjá WOW Air auk þess sem hún var í starfsnámi hjá fastanefnd Íslands í Genf haustið 2019 og nú í vor hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Grímur Birgisson hefur hafið störf sem lögfræðingur hjá Nasdaq á Íslandi. Grímur útskrifaðist með B.A. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2016 og meistaragráðu í lögfræði (mag.jur.) frá sama skóla árið 2018. Áður starfaði Grímur sem fulltrúi á LEX lögmannsstofu og sinnti þar hefðbundnum lögmannsstörfum, helst á sviði fjármálamarkaða.

Kristófer Númi Hlynsson hefur hafið störf hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð í þjónustu og ráðgjöf við viðskiptavini og við þróun á nýjum vörum og þjónustu. Kristófer hefur lokið mastersgráðu í alþjóðlegum fjárfestingum og fjármálum frá Bournemouth University, ásamt B.A. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands. Áður en hann hóf störf hjá verðbréfamiðstöðinni, starfaði hann hjá fjárfestingabankanum JP Morgan í Bretlandi á sviði fyrirtækjaaðgerða. Þá hefur Kristófer starfað sem þjónustufulltrúi einstaklinga og fyrirtækja hjá Landsbankanum og á lögfræðisviði Arion banka,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×