Viðskipti innlent

Á­kváðu að stofna fjöl­skyldu­kaffi­hús í Laugardalnum í miðju kórónu­veiru­kófi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kaffihúsið Dalur opnar formlega á morgun, þjóðhátíðardag Íslendinga.
Kaffihúsið Dalur opnar formlega á morgun, þjóðhátíðardag Íslendinga. Dalur/Facebook

Kaffihúsið Dalur verður opnað á þjóðhátíðardaginn en það er staðsett á fyrstu hæð farfuglaheimilisins við Sundlaugaveg í Reykjavík. Í kórónuveirukófinu tók starfsfólkið sig til og breytti fyrstu hæð hússins í kaffihús og hafa hlotið mikið lof frá íbúum Laugardalshverfisins.

Þorsteinn Jóhannesson, framkvæmdastjóri Farfugla, segir að hugmyndin hafi lengið verið til staðar en aðstandendur farfuglaheimilisins hafi ákveðið að láta ríða á vaðið þegar landinu var lokað í byrjun mars. „Þetta er hugmynd sem við höfum verið með í maganum mjög lengi að opna hér fjölskyldukaffihús og við ákváðum að láta verða af því núna. Það var þrennt sem ýtti undir að við gerðum það: dásamleg staðsetning, nóg pláss og frábært starfsfólk.“

Það er stórt leiksvæði fyrir börn á kaffihúsinu, bæði inni og úti.Dalur

Starfsfólk farfuglaheimilisins vann að því að koma kaffihúsinu á legg á meðan farfuglaheimilið var lokað. „Það hefur bara verið okkar verkefni núna að koma þessu upp,“ segir Þorsteinn.

Á opnunardaginn, á morgun 17. júní, verður nóg um að vera. „Það verður nóg að gera fyrir krakkana, við erum með leikföng á staðnum bæði úti og inni og það verður lifandi tónlist á pallinum seinnipartinn og góð stemning.“

Hann segist hafa orðið var við góðar viðtökur í hverfinu. Margir hafi haft samband síðustu daga, sérstaklega fjölskyldufólk, sem hafi sagt að þetta hafi einmitt verið það sem vantaði í hverfið. „Við finnum að þetta er komið út um allt og við höfum fengið skilaboð, sérstaklega frá fjölskyldufólki um að þetta sé bara akkúrat það sem vantaði: fjölskylduvænt kaffihús með stóru og góðu, öruggu svæði úti og inni fyrir börnin til að leika.“

Þorsteinn Jóhannesson, framkvæmdastjóri Farfugla, segir áhersluna á kaffihúsinu vera á fjölskyldufólk.Dalur

„Þessi lokun landsins gerði okkur auðvitað kleift að endurhugsa þetta svolítið og nýta betur það pláss sem við höfum. Svo það að hafa opinn bakgarð út í fallegan Laugardalinn, það eru náttúrulega alger forréttindi,“ segir Þorsteinn.

Farfuglar reka einnig gistiheimili og kaffihús á Bankastræti sem ber nafnið Loft hostel. „Það má kannski segja að þetta sé systurkaffihús Loft. Loft sem er þessi víbrant viðburðarstaður fyrir ungt fólk en þetta verður systurkaffihús með áherslu á fjölskyldur.“

Innanstokksmunir eru langflestir notaðir.Dalur

Á bak við kaffihúsið er stórt opið svæði sem leiðir út á tjaldsvæðið í Laugardalnum. „Úti á grasi sem snýr að Laugardalnum, ekki út að götu, þar verðum við með badminton-net, við erum með lítil fótboltamörk, við erum með krikket fyrir börnin, við verðum með kubb og alls konar fyrir krakkana að leika sér með á stóru svæði.“

Fjölskyldufólk er velkomið í Dal.Dalur




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×