Enski boltinn

Sancho orðinn of dýr fyrir Man. Utd?

Sindri Sverrisson skrifar
Jadon Sancho er þrátt fyrir ungan aldur að klára sína þriðju leiktíð með Dortmund.
Jadon Sancho er þrátt fyrir ungan aldur að klára sína þriðju leiktíð með Dortmund. VÍSIR/GETTY

Þrátt fyrir að stjórnendur hjá Dortmund hafi viðurkennt að Jadon Sancho geti veri til vandræða þá vilja þeir ekki selja hann nema fyrir himinhátt verð.

Sancho, sem er tvítugur, enskur kantmaður, hefur verið sterklega orðaður við Manchester United en Dortmund vill fá 115 milljónir punda fyrir kappann, samkvæmt frétt Daily Telegraph. United hefur mest greitt 89 milljónir punda fyrir Paul Pogba árið 2016.

Samkvæmt Telegraph var United fremst í kapphlaupinu um Sancho áður en að kórónuveirufaraldurinn skall á en mikil óvissa ríkir á leikmannamarkaðnum vegna faraldursins og fjárhagslegra afleiðinga hans. Forráðamenn United eru hikandi við að borga á slíkum tímum hæsta verð sem þeir hafa greitt fyrir leikmann. Samkvæmt Telegraph verða engar áætlanir ritaðar í stein fyrr en tímabilið verður að minnsta kosti hafið að nýju og meira vitað um stöðu leikmanna.

Sancho fékk sekt fyrr á þessari leiktíð eftir að hafa komið of seint úr landsliðsferð, og hann fékk einnig sekt frá þýska knattspyrnusambandinu fyrir að fara í klippingu án andlitsgrímu og brjóta þannig reglur til að sporna við smithættu.

„Jadon er ekki bara einstakur fótboltamaður sem eftir er tekið úti á velli, heldur einnig utan vallar. Stundum er það ekki auðvelt fyrir okkur,“ sagði Michael Zorc, yfirmaður íþróttamála hjá Dortmund, við Bild.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×