Bílar

Nýr Land Rover Defender 110 kynntur víða á höfuðborgarsvæðinu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Land Rover Defender 110 í sínu náttúrulega umhverfi.
Land Rover Defender 110 í sínu náttúrulega umhverfi.

BL frumsýndi um helgina, nýjan Land Rover Defender 110. Sýningin var haldin samtímis á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Mismunandi útbúnum Defender bílum var stillt upp með ýmsum aukabúnaði í sínu náttúrulega umhverfi á toppi Úlfarsfells, í hesthúsakerfinu í Víðidal, við Nauthól í Fossvogi og við veitingastaðinn Sjáland í Garðabæ. Á hverjum sýningarstað voru mismunandi útfærslur Defender sýndar m.t.t. véla og valbúnaðar.

Land Rover Defender 110 er stærri gerð nýrrar kynslóðar þessa sögufræga bíls. Defender 110 er fáanlegur allt að 7 manna (2+3+2) og í mismunandi útfærslum, Base (standard), S, SE, HSE og X auk First edition til að byrja með. Tvær vélar eru í boði, annars vegar tveggja lítra 240 hestafla dísilvél með tveimur forþjöppum og hins vegar 400 hestafla, þriggja lítra bensínvél HYBRID með rafmótor. Meðaleldsneytiseyðsla er frá 7,5 l/100km/klst. Í öllum gerðum Defender nema X gerðinni er val um dísil- eða bensínvélina. Viðskiptavinir geta síðan valið úr fjölbreyttu úrvali mismunandi aukabúnaðar sem aldrei hefur verið jafn ríkulegt og nú. Svo dæmi sé nefnt er hægt að velja Defender með fjarstýrðu dráttarspili, topptjaldi með markísu og myndavél sem sýnir ökumanni undirlagið framan við framhjólin sem alla jafna er utan sjónsvæðis ökumanns.

Einstök drifgeta Defender

Grunngerð Defender, Base, sem kostar 12.790 þúsundir króna, er afar vel búin staðalbúnaði.

Hann er t.d. með millikassa með tveimur drifum Terrain Response, sem velur hentugustu stillingar bílsins miðað við akstursskilyrði og í samræmi við upplýsingar sem ökumaður færir inn. Kerfið fínstillir vélina, gírskiptinguna, mismunadrifið og undirvagninn til að hámarka aksturseiginleika, þægindi og grip á ólíku undirlagi. Þá er Base-útgáfan einnig búin rafrænni loftpúðafjöðrun sem má hækka og lækka eftir aðstæðum en í hæstu stöðu er hæð undir lægsta punkt 29,1 cm. Defender er ennfremur búinn vaðskynjara, hraðastilli og sjálfvirkri hraðatakmörkun, akreinastýringu, neyðarhemlun og uferðarskiltagreiningu svo eitthvað sé nefnt.

Þægindin í fyrirrúmi

Í farþegarýminu eru sæti fyrir allt að 7 manns eftir vali viðskiptavina. Bílinn er t.d. hægt að fá með miðjusæti fram í, þar sem þrír geta þá setið. Þegar miðjusætið er ekki notað má reisa það upp og tekur geymslustokkur undir sætinu þá við. Baksýnisspegill Defender er með sjálfvirkri deyfingu, framsætin eru að hluta rafdrifin með átta stefnustillingum, miðlægur upplýsingaskjárinn er tíu tommur (Pivi Pro) og m.a. með þrívíðri umhverfismyndavél og 360° bílastæðakerfi auk þess sem fjölmargir aðrir þættir stjórnbúnaðar bílsins er stýrt af skjánum. Afþreyingarkerfið er 180 W og búið sex hátölurum auk þess sem allar fremstu lausnir snjallsímakerfa eru til staðar ásamt mörgum innstungum fyrir aukabúnað. Þá er grunngerðin einnig búin leiðsögukerfinu Connected Navigation Pro svo nokkuð sé nefnt. Þess má að lokum geta að vel hljóðeinangrað gólf Defender er án teppa og innréttingin sérstaklega hönnuð til að auðvelda þrif að loknu ferðalagi enda má spúla gólfið að innan með vatni. Innanrými Defender 110 er afar gott enda höfuðrými nægt og sætin hástæð, þægileg og breið til mikilla þæginda á ferðalögum.

3.500 kg dráttargeta og mikil vaðdýpt

Burðargeta Defender 110 er allt að 900 kg, þar af má hlaða 300 kg á toppgrindina. Dráttargetan er 3,5 tonn og er óhætt að aka bílnum í vatni sem er allt að 90 cm djúpt sem gerir Defender að einum fjölhæfasta torfærubílnum á sínu sviði og jafnvígan mörgum breyttum bílum. Nánari upplýsingar um Defender 110 eru að finna á landrover.is.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.