Handbolti

Þurfa að safna fimm til sex milljónum danskra króna til að bjarga liðinu frá gjald­þroti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ágúst Elí á æfingu með íslenska landsliðinu.
Ágúst Elí á æfingu með íslenska landsliðinu. vísir/getty

Danska úrvalsdeildarfélagið KIF Kolding þarf að safna fimm til sex milljónum danskra króna ef liðið ætlar sér að spila í deild þeirra bestu á næstu leiktíð. Ágúst Elí Björgvinsson er samningsbundinn liðinu.

KIF Kolding hefur verið mikið í fréttum í Danmörku að undanförnu en þeir hafa barist í bökkum fjárhagslega. Ólafur Gústafsson og Árni Bragi Eyjólfsson léku með liðinu á síðustu leiktíð en Ágúst Elí samdi við liðið á vormánuðum er allt virtist í fínu lagi.

Stjórn deildarinnar ákvað hins vegar að hætta 12. maí þar sem ekki náðist að semja við leikmenn um skerðingu launa á tímum kórónuveirunnar. Þeir voru beðnir um að taka á sig 40% launalækkun en voru í mesta lagi tilbúnir að lækka laun sín um 20%.

Félagið vonaðist eftir að þegar þessar fréttir bárust í fjölmiðla, að félagið væri að berjast við fjárhagserfiðleika, að þá myndu nokkrir fjársterkir aðilar leggja félaginu lið en það hefur ekki gerst.

Nú þarf nýr formaður Gunnar Fogt og hans félagar í stjórninni að safna fimm til sex milljónum danskra króna, sem samsvarar 100 til 120 milljónum íslenskra króna.

Ágúst Elí Björgvinsson skrifaði undir tveggja ára samning við félagið og framtíð hans er í óvissu eins og hjá öðrum leikmönnum liðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.