Skoðun

Stöndum saman

Stefán Pétursson skrifar

Við sem búum á Íslandi höfum oftar en ekki staðið frammi fyrir ægikrafti náttúrunnar og horft vanmáttug á þau gríðarlegu öfl sem hún býr yfir. Þegar náttúruöflin rumska af svefni sínum og hrista sig verðum við, sum hver, eða flest, óttaslegin en á sama tíma fyllumst við lotningu og æðruleysi yfir þeim ógnaröflum sem í landinu búa. Yfir okkur hafa dunið eldgos, jarðskjálftar, snjóflóð og mannskaðaveður. Á slíkum stundum hefur þjóðin snúið bökum saman og staðið sem ein heild, ein fjölskylda. Við höfum hughreyst hvert annað, stappað stálinu í okkur sjálf og fólkið í kringum okkur og sýnt samhug og samkennd. 

Enn á ný stöndum við frammi fyrir gríðarlegri áskorun, sem er af áður óþekktri stærð, áskorun sem við þurfum öll sem eitt að takast á við, í sameiningu.

Kórónuveiran, Covid-19, er andstæðingurinn að þessu sinni og hann er óþokki af verstu sort. Ekki nóg með að hann sé bráðsmitandi og ógni líkamlegri heilsu, heldur beitir hann líka blekkingum og sýkir hugann af ringulreið, efa og reiði út í framvarðasveit heilbrigðiskerfisins, brimbrjóta þjóðarinnar í fremstu víglínu baráttunnar. Hann sundrar frekar en sameinar, hann sundrar sameiningunni og samstöðunni, sem hefur einkennt okkur, þegar áföll dynja yfir, og læðist í huga okkar og spillir hugsunum okkar. 

Heilbrigðisstarfsfólkið okkar, viðbragðsaðilar og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra ásamt Landlækni og Sóttvarnalækni eru að gera allt sem í þeirra valdi stendur, til að hughreysta okkur, fræða okkur, kenna okkur og hjálpa okkur. Þau standa fremst í stafni og mæta ógninni jafn óttasleginn um sig og sína nánustu eins og hver annar, en standa samt ákveðin með eld í augum og föst fyrir, þennan slag ætlum við og munum vinna.

En óvinurinn er lævís óþokki og hreiðrar um sig í hugarfylgsnum okkar og eitrar huga og hönd.

Nú ber svo við að fram á völlinn skeiða (mis) vitrir sjálfskipaðir sérfræðingar með allt á hornum sér. Bak við sótthreinan tölvuskjáinn með vel sprittaðar hendurnar hamra þessir sjálfskipuðu sérfræðingar grímulaust á sterilt lyklaborðið og ausa visku sinni yfir alnetið og láta (sápu) froðuna vella yfir allt og alla. Óvinurinn hefur eitrað út frá sér og veit að með því að rjúfa gat á varnir okkar nær hann árangri.

Fólkið í framlínunni, fólkið sem vinnur dag og nótt með það eina markmið að leiðarljósi að gera sitt allra besta svo við hin getum sofið aðeins betur eða fundið til öryggis hefur ekkert til þess unnið að eiga skilið einhverjar skammir og ávirðingar um ábyrgðarleysi og kæruleysi, fólkið sem vinnur dag og nótt sleitulaust að því að finna lausnir á aðvífandi vanda og leysa úr öllum þeim málum sem til þeirra berast. Slys, hamfarir og aðrir sjúkdómar fara ekki í frí á meðan þessi vágestur tröllríður yfir heimsbyggðina, munum það. Viðbragðsaðilar og fólkið í fylkingarbrjósti heilbrigðiskerfisins vinnur baki brotnu allann sólarhringinn við að leysa úr hverjum þeim vanda sem að höndum ber, þetta fólk á allt ástvini, sem óttast um þau dag og nótt, ástvini sem vita ekki hvort það sé í lagi að faðma viðkomandi, þegar þau koma loksins heim eftir langa og erfiða vakt, ef þau komast þá heim, því kannski gæti óargardýrið hafa náð að smeygja fram hjá vörnunum og komist inn að skinni. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar er brimbrjótur þjóðarinnar, þau taka við holskeflunni, sem dynur yfir, með æðruleysi og eld í augum.

Nú, sem aldrei fyrr, þurfa þau að finna fyrir stuðningi og samhug okkar allra, samstöðunni og samhugnum sem einkennir íslenska þjóð á ögurstund, ekki aðdróttunum um slæleg vinnubrögð eða þá sjálfselsku að voga sér að fara í verðskuldað frí.

Oft var þörf en nú er nauðsyn, stöndum saman og styðjum og hvetjum, ekki sundra og sverta, því ef við stöndum ekki saman þá sigrar veiran hugann og sýkir höndina, sem handleikur lyklaborðið. Munum það, að þegar við sigrum þennan vágest, standa orðin eftir.

Höfundur er sjúkraflutningamaður og nemandi í Opinberri stjórnsýslu við Háskólann á Bifröst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×