Handbolti

Íris Björk tekur sér hlé frá handbolta en Valur fær Sögu Sif

Anton Ingi Leifsson skrifar
Saga Sif ver mark Vals á næsta tímabili.
Saga Sif ver mark Vals á næsta tímabili. vísir/vilhelm

Margfaldi Íslandsmeistarinn og markvörðurinn Íris Björk Símonardóttir hefur ákveðið að taka sér frí frá handbolta og mun því ekki leika með Val í Olís-deild kvenna á næstu leiktíð. Valur hefur klófest Sögu Sif Gísladóttur frá Haukum.

Íris Björk hefur verið einn albesti markvörður Olís-deildarinnar undanfarin ár. Valur var í 2. sæti Olís-deildar kvenna er mótið var blásið af en Íris Björk var með tæplega 44% markvörslu í vetur.

Valur hefur hins vegar skrifað undir tveggja ára samning við Sögu Sif Gísladóttur en Saga var í 6. sætinu yfir prósentuhlutfallsmarkvörslu í vetur er hún lék með Haukum. Hún var með tæplega 34% markvörslu.

„Saga er spennandi leikmaður sem hefur mikinn metnað og gott hugarfar. Hún kemur því sterk inn hjá okkur og mun mynda spennandi markvarðateymi með yngri markmönnum liðsins,“ sagði Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals. Fyrir hjá félaginu eru þær Andrea Gunnlaugsdóttir og Margrét Einarsdóttir.

Saga er uppalin hjá FH en lék síðar með Fjölni og svo Haukum en hún á að baki yfir 200 meistaraflokksleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×