Viðskipti erlent

Hertz óskar eftir greiðslustöðvun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá starfsstöð Hertz í Texas í Bandaríkjunum.
Frá starfsstöð Hertz í Texas í Bandaríkjunum. Vísir/Getty

Bílaleigan Hertz í Bandaríkjunum sótti í gær um greiðslustöðvun. Fyrirtækið er eitt þeirra sem komið hefur illa út úr þeim fjárhagslegu hremmingum sem faraldur kórónuveirunnar hefur valdið. Það ætlar þó ekki að hætta rekstri. CNN greinir frá.

„Áhrif Covid-19 á eftirspurn eftir ferðalögum voru skyndileg og mikil, sem olli óvæntri niðursveiflu í hagnaði félagsins og bókunum,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar sagði einnig að þar sem óljóst væri hvenær markaður notaðra bíla og hvenær fyrirtækið gæti aftur fengið tekjur hefði greiðslustöðvun verið það eina í stöðunni.

Bílaleigubransi heimsins hefur átt erfitt uppdráttar síðan ferðatakmörkunum var komið á víða um heim vegna faraldurs kórónuveirunnar sem valdið getur Covid-19. Um tveir þriðju af tekjum bílaleiga koma frá starfsstöðvum þeirra á eða við flugvelli, sem nú eru mannfærri en oft áður.

Þrátt fyrir að Hertz hafi sótt um greiðslustöðvun þýðir það ekki endilega að rekstri fyrirtækisins sé lokið. Í yfirlýsingu frá Hertz segir að ferlið muni veita fyrirtækinu „traustari fjárhagslegan grundvöll sem setur fyrirtækið í góða stöðu á meðan það vinnur sig í gegnum það sem gæti verið langt efnahagslegt bataskeið.“

Hertz hefur leigt fólki bíla í meira en 100 ár, eða frá 1918, og hefur því lifað af Kreppuna miklu, frost í bílaframleiðslu í Bandaríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni og fleira.

Uppfært klukkan 09:22: Vegna fyrirspurna sem fréttastofu hafa borist er rétt að árétta að um er að ræða Hertz í Norður-Ameríku, en ekki á Íslandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×