Viðskipti innlent

Á ekki von á bið­röðum af ferða­mönnum þegar landið opnar

Atli Ísleifsson skrifar
Steingrímur ræddi við Bítismenn í morgun um ástandið á bílaleigumarkaði á tímum kórónuveirufaraldursins.
Steingrímur ræddi við Bítismenn í morgun um ástandið á bílaleigumarkaði á tímum kórónuveirufaraldursins. Vísir/Vilhelm

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, segist ekki eiga von á því að biðraðir skapist af ferðamönnum þegar landið verður opnað á ný um miðjan næsta mánuð.

Steingrímur ræddi við Bítismenn í morgun um ástandið á bílaleigumarkaði á tímum kórónuveirufaraldursins.

„Þetta er búið að vera mjög sérstakt með stóran hluta starfsfólksins ýmist heima eða vinnandi að heiman og afskaplega lítið að gera.“

Nær einungis afpantanir

Steingrímur segir að lítið sem ekkert sé um pantanir, bara afpantanir. „Ég held að það hafi nánast ekkert verið pantað af erlendum ferðamönnum.“

Hann segir að fyrirtækið hefði þurft að ráðast í drastískar aðgerðir ef ástandið hefði verið óbreytt mikið lengur. „Við hefðum alveg komist í gegnum þetta með lokun, en ekki endalaust. Það er alveg ljóst að þessi opnun á landinu 15. júní, ég á ekki von á því að það verði einhverjar biðraðir af ferðamönnum að komast til landsins. En það er mjög jákvætt fyrir greinina og landið í heild sinni að við náum þó að opna og feta okkur áfram og taka næstu skref.“

Einhverjar hræður myndu færa manni von og trú

Steingrímur segir að mikið hafi verið um afbókanir á tímabilinu út maí og í júní, en að bókanir hafi haldist fyrir júlí og ágúst að einhverju leyti. „Það skiptir okkur gríðarlegu máli að fá inn þó ekki sé nema einhverjar hræður sem færa manni von og trú.“

Hann segir bílaleiguna búa yfir um 4.500 bílum og að unnið hafi verið að því að fækka þeim eitthvað. Upp og ofan hafi gengið að finna bílastæði fyrir alla bílana, en þetta hafi bjargast með aðstoð „skilningsríkra nágranna“.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni að neðan.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.