Bílar

Góð ráð um viðhald bíla í samkomubanni

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Það getur borgað sig að undirbúa sig vel ef leggja á bíl í lengri tíma.
Það getur borgað sig að undirbúa sig vel ef leggja á bíl í lengri tíma. Vísir/fréttir Stöðvar 2

Umferðatölur frá Vegagerðinni sýna að samkomubann sem nú er í gildi vegna COVID-19 hefur dregið verulega úr akstri almennings. Það er því gott að huga að því hvað er skynsamlegt að gera til að viðhalda bílnum sínum sem best, þegar honum er ekið minna en ella.

Inni ef hægt er

Bílar eru almennt betur geymdir inni ef hægt er, þá í bílskúrum eða öðrum tilætluðum húsakynnum. Það er mikilvægt að lofti vel um bíla þegar þeir eru inni, annars getur raki myndað skemmdir eða myglu.

Ekki lofta of vel, það er ekki gaman að koma að bílnum sínum þegar köttur nágrannans hefur pissað í sætin.

Sjá einnig: Tvö hundruð fermetra tveggja hæða bílskúr í Kópavoginum. 

Hemlar og hjólbarðar

Ef bíll á að sitja kyrrstæður í lengri tíma, einhverjar vikur eða mánuði er skynsamlegt að hafa hann á flötu undirlagi og ekki í handbremsu. Annars er hætta á að hún festist á.

Bremsudiskar byrja hratt að ryðga ef þeir eru ekki notaðir, það er því mikilvægt að kanna ástand þeirra áður en bíllinn er notaður aftur eftir langa kyrrstöðu. Ef bíllinn á að standa mjög lengi gæti verið sniðugt að setja hann á búkka til að koma í veg fyrir að flatir blettir myndist 

Rafgeymirinn

Ef bíl er ekki ekið í lengri tíma er það yfirleitt rafgeymirinn sem gefur sig fyrst. Hann gæti byrjað að kvarta strax á annarri viku, bíllinn orðið lengur að starta sér. Það gerist vegna þess að geymirinn tapar hleðslu.

Til að þurfa ekki að kaupa nýjan rafgeymi eftir að bíllinn hefur staðið í einhvern tíma er hægt að grípa til ráðstafana. Regluleg notkun á bílnum getur gert mikið fyrir rafgeyminn. Hægt er að kaupa hleðslutæki sem heldur geyminum í toppmálum. Það er vissara að slökkva öll ljós og á öllum raftækjum til að minnka líkurnar á að geymirinn tapi allri hleðslu.

Olía og kælivökvi

Það er engin þörf á að fara í olíuskipti eingöngu vegna þess að bíll hefur staðið í nokkrar vikur. Ef líða nokkrir mánuðir þá er þó betra að huga að olíuskiptum. Þá er hægt að setja bílinn í gang reglulega til að olían fái að flæða um og gera sitt.

Bæði olíu og kælivökva er skynsamlegt að skipta um áður en bíll á að fá að standa í einhvern lengri tíma.

Aftur á göturnar

Ef þú grípur til viðeigandi ráðstafana er líklegt að bíllinn þinn verði klár um leið og þú ætlar að fara að nota hann aftur.

Prófaðu hemlana varlega og vandlega áður en þú heldur af stað í umferðina. Það er það allra mikilvægasta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×