Enski boltinn

Níu félög vilja ekki hætta á að spila eftir 30. júní

Sindri Sverrisson skrifar
Enn er óljóst hvort og þá hvenær Englandsmeistarar ársins 2020 verða krýndir.
Enn er óljóst hvort og þá hvenær Englandsmeistarar ársins 2020 verða krýndir. VÍSIR/EPA

Að minnsta kosti níu félög úr ensku úrvalsdeildinni í fótbolta vilja að tekin verði skýr ákvörðun um það að keppnistímabilinu verði lokið 30. júní.

Það er Daily Mirror sem greinir frá þessu og segir að félögin muni leggja fram tillögu sína á fundi ensku úrvalsdeildarinnar á föstudaginn. The Guardian tekur í sama streng.

Flest lið í deildinni eiga níu leiki eftir og fjögur þeirra eiga tíu leiki eftir. Því er erfitt að sjá að hægt verði að spila alla leiki fyrir 30. júní nú þegar enn er útgöngubann í Englandi vegna kórónuveirufaraldursins. Félögin hafa áhyggjur vegna þess að 30. júní renna út samningar hjá leikmönnum sem eru á lokaári samnings. Stórir samningar við styrktaraðila eru einnig miðaðir við þessa dagsetningu.

Félögin eru sögð gera sér grein fyrir að ekki komi til greina að ógilda mótið og byrja upp á nýtt í haust, en vilja að fundin verði sanngjörn leið til að ljúka því, krýna Liverpool meistara og ákveða hvaða lið fari í Evrópukeppni og hvaða lið falli. Það sé betra en að taka sénsinn á þeirri gríðarlegu óvissu og ringulreið sem það geti haft í för með sér að fara með mótið fram í júlí eða lengra fram á sumar.

FIFA hefur verið að skoða lausnir varðandi samningamál þeirra leikmanna sem ættu að losna undan samningi 30. júní en ensku félögin óttast að það myndi ekki standast lög að halda leikmönnum fram yfir þann dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×