Rúmlega helmingi færri kaupsamningar voru gerðir í apríl en í mars. Fasteignasali segist ekki hafa séð slíkan samdrátt áður og rekur hann til kórónuveirufaraldursins. Hann segist bjartsýnn á að sala taki aftur við sér fljótt.
Alls voru 282 kaupsamningar um fasteignir þinglýstir á höfuðborgarsvæðinu í apríl samkvæmt tölum Þjóðskrár. Í mars voru þeir 612 og fækkaði kaupsamningum því um 53,9% á milli mánaða. Páll Pálsson, fasteigna- og fyrirtækjasali hjá fasteignasölunni 450, segir að samdrátturinn sé 47,8% borið saman við apríl í fyrra í pistli sem hann skrifar á vefsíðu sína.
Í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni sagðist Páll ekki muna sjálfur eftir slíkum tölum áður. Ekki séð vitað hver þróunin á fasteignamarkaði verði á næstunni. Hann segist sjálfur bjartsýnn á framhaldið.
Vísaði hann til umferðar um fasteignavef Mbl.is. Hún hafi dregist verulega saman eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti kom á takmörkunum á ferðir frá Evrópu í mars. Í síðustu viku hafi umferðin um vefinn hins vegar verið sú mesta í fjögur ár.
„Það virðist vera að það verði mjög hratt niður og mjög hratt upp aftur,“ sagði Páll.
Í þjóðhagsspá Íslandsbanka sem var birt fyrr í vikunni var því spáð að raunverð íbúða myndi lækka um 3,2% á þessu ári, fyrst og fremst vegna minni eftirspurnar í efnahagsþrengingum sem faraldurinn veldur.