Körfubolti

Tomsick til liðs við Tindastól

Sindri Sverrisson skrifar
Nikolas Tomsick var frábær í liði Stjörnunnar í vetur.
Nikolas Tomsick var frábær í liði Stjörnunnar í vetur. Vísir/Daníel

Körfuknattleiksmaðurinn Nikolas Tomsick mun spila á ný undir stjórn þjálfarans Baldurs Þórs Ragnarssonar á næstu leiktíð en hann hefur samið við Tindastól.

Tomsick varð deildarmeistari með Stjörnunni í vetur en lék tímabilið þar áður með Þór Þorlákshöfn, undir stjórn Baldurs. Nú hefur hann ákveðið að ganga í raðir þriðja félagsins hér á landi, Tindastóls, en þetta staðfestir Baldur við Feyki.is í dag.

„Tomsick spilaði mjög vel með Stjörnunni í vetur og hefur sýnt fram á það að hann er hágæða leikmaður, þannig að þetta er klárlega góð viðbót við liðið,“ sagði Baldur við Feyki.

Tomsick var stigahæstur deildarmeistara Stjörnunnar í vetur með 20,1 stig að meðaltali í leik og skoraði jafnframt oft þegar mest lá við. Þessi 29 ára gamli Króati átti auk þess 5,1 stoðsendingu og tók 3 fráköst að meðaltali í leik í vetur. Hann varð jafnframt bikarmeistari með Stjörnunni í vetur og var stigahæstur í úrslitaleiknum ásamt Ægi Þór Steinarssyni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.