Viðskipti innlent

Skipti líklega ein í Slóveníu

Brynjólfur Bjarnason fréttir af því að keppinautarnir hætti við hafa engin áhrif á áform Skipta.
Brynjólfur Bjarnason fréttir af því að keppinautarnir hætti við hafa engin áhrif á áform Skipta.

„Við höldum okkar viðræðum við slóvensku einkavæðingarnefndina áfram,“ segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta. Slóvenskir fjölmiðlar fullyrða að keppinautur Skipta hafi tekið aftur tilboð sitt í slóvenska landsímann.

Félögin Bain Capital, Axos Capital og BT buðu sameiginlega í tæplega helmingshlut slóvenska ríkisins í slóvenska landsímanum, Telekom Slovenije, á móti Skiptum, móðurfélagi Símans.

Brynjólfur Bjarnason segir að þessi tíðindi hafi engin áhrif á Skipti og viðræður þeirra. Mestu máli skipti að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst.

Slóvensk fjarskiptayfirvöld ítrekuðu á blaðamannafundi í gær að báðir bjóðendur hefðu frest til föstudags til að endurskoða tilboð sín. Ákvörðun einkavæðingarnefndar landsins myndi svo liggja fyrir hinn 3. mars.

Hermt er í slóvenskum fjölmiðlum að Bain, Axos og BT hafi tilkynnt einkavæðingarnefndinni að tilboð hópsins yrði ekki endurskoðað fyrir föstudag. Hópurinn er óánægður með tafir í viðræðuferlinu. Samkvæmt heimildum Markaðarins hjá slóvenskum fjarskiptayfirvöldum, var sú tilkynning tilefni blaðamannafundarins í gær.

Skipti höfðu áður skrifað einkavæðingarnefndinni og kom fram í yfirlýsingu frá henni fyrir helgi að Skipti hefðu einnig hótað að taka tilboð sitt aftur.

Eitt meginskilyrðið fyrir einkavæðingu Landsímans hér á sínum tíma var að félagið yrði skráð á almennan hlutabréfamarkað, í síðasta lagi um síðustu áramót. Fjármálaráðherra veitti Skiptum undanþágu frá þessu, vegna viðræðna um kaup á slóvenska símanum. Skipti hafa lýst því yfir að félagið verði skráð á hlutabréfamarkað í mars. - ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×