Viðskipti innlent

Parken selur Billetlugen til Miða.is

Flemming Östergaard.
Flemming Östergaard.
Miði.is og Nýsir keyptu í dag 90% í Billetlugen, einu framsæknasta miðasölufyrirtæki Danmerkur. Billetlugen var áður í eigu PARKEN Sport and Entertainment (55%) og Hans Henrik Palm (45%).

 

Í tilkynningu um málið kemur fram að Billetlugen hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem eitt sterkasta sjálfstæða miðasölufyrirtæki í Evrópu.

 

Fyrirtækin þrjú; Billetlugen.dk, Miði.is og Bilet.ro munu sameinast undir eignarhaldsfélaginu Creatrix. Creatrix er þá leiðandi fyrirtæki í miðasölu í Danmörku, Íslandi og Rúmeníu.

 

PARKEN Sport & Entertainment sem hefur verið meirihlutaeigandi Billetlugen frá því 2002 hefur keypt 10% í hinu sameinaða félagi og mun taka virkan þátt í frekari uppbyggingu þess í Danmörku og víðar.

 

- PARKEN Sport & Entertainment kom upphaflega að Billetlugen til þess að tryggja virka samkeppni á markaði, hátt þjónustustig og samkeppnishæf verð. "Ég tel okkur hafa náð okkar markmiðum með fjárfestingunni í Billetlugen; við höfum skapað fjárhags- og markaðslega sterkt félag." Er haft eftir Flemming Østergaard stjórnarformanni PARKEN Sport & Entertainment.

 

Með sameiningunni munu eigendur Creatrix samnýta krafta félaganna til frekari framsóknar á núverandi og nýjum mörkuðum.

 

- Við erum stoltir af þessari fjárfestingu og fögnum samstarfi við PARKEN Sport & Entertainment. Billetlugen er öflugt félag og í því leynast mikil tækifæri. Við sjáum fyrir okkur að innan tíðar verði þetta eitt stærsta miðasölufyrirtækið í norður Evrópu. Segir Einar Sævarsson, fyrir hönd Creatrix.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×