Viðskipti innlent

Kaupþing græðir á breytingum í Bretlandi

Ármann Þorvaldsson
Ármann Þorvaldsson

Kaupþing Singer & Fried­lander hættir starfsemi á sviði eignafjármögnunar og hrávöruviðskiptafjármögnunar auk þess sem gerðar hafa verið skipulagsbreytingar innan fyrirtækjasviðsins í Bretlandi.

Í tilkynningu Kaupþings til Kauphallar Íslands í gær kemur fram að breytingarnar séu síðasti liðurinn í endurskipulagningu rekstrar­ins í Bretlandi í kjölfar kaupa Kaupþings á Singer & Friedlander árið 2005.

Haft er eftir Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kaupthing Singer & Friedlander, að bankinn beini nú kröftum sínum og fjármagni að kjarnastarfseminni í Bretlandi.

Í nýrri greiningu breska fjármálaþjónustubankans Fox-Pitt Kelton (FPK) sem gefin var út eftir að tilkynnt var um breytingarnar eru þær litnar jákvæðum augum. „Auk þess að hafa góð áhrif á fjárhag bankans og fjármögnunarþörf, sjáum við í ákvörðun bankans skref í þá átt að skerpa áherslur í að straumlínulaga reksturinn,“ segir Kim Bergoe, sérfræðingur greiningar­deildar FPK.

Bendir hún á að lausafjárstaða Kaupþings sé afar góð og batni enn við endurskipulagninguna í Bretlandi sem áætlað er að bæti hag bankans um sem nemur einn milljarð evra, eða nálægt 98 milljörðum króna. „Efnahagsumhverfi dagsins er viðskiptamódeli Kaupþings í óhag, en að okkar mati virðast áhyggjur af lausafjárstöðu bankans tæpast eiga rétt á sér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×