Körfubolti

Ótrúleg endurkoma Horsens undir stjórn Finns

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Finnur Freyr gerði KR að fimmföldum Íslandsmeisturum á sínum tíma.
Finnur Freyr gerði KR að fimmföldum Íslandsmeisturum á sínum tíma. Vísir/Bára

Lærisveinar Finns Freys Stefánssonar í Horsens unnu hreint út sagt ótrúlegan 82-76 sigur á Svendborg Rabbits á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta fyrr í dag. Svendborg Rabbits voru á einum tímapunkti 31 stigi yfir í leik dagsins en Horsens tókst einhvern veginn að vinna leikinn með sex stiga mun.

Sóknarleikur Horsens var vægast sagt skelfilegur framan af leik en liðið skoraði ekki nema 26 stig í fyrri hálfleik, þar af aðeins átta í 2. leikhluta. Staðan í hálfleik var 54-26 Rabbits í vil.

Í 3. leikhluta settu Horsens hins vegar í lás en heimamenn skoruðu aðeins fimm stig á þeim kafla leiksins á meðan gestirnir undir stjórn Finns söxuðu á forskotið. Þann leikhluta unnu Horsens með 22 stiga mun og héldu svo áhlaupi sínu áfram í síðasta fjórðung leiksins.

Fór það svo að þeir unnu á endanum magnaðan sex stiga sigur, lokatölur 82-76 Horsens í vil. Horsens á svakalegri siglingu þessa dagana en liðið hefur unnið átta af síðustu níu leikjum sínum og er komið upp í toppsæti A-riðils. Þá er liðið einnig komið í úrslit danska bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×