Viðskipti innlent

Almenni lífeyrissjóðurinn: Það var slæm hugmynd að fjárfesta í Baugi

Sigríður Mogensen. skrifar

Almenni lífeyrissjóðurinn, sem rekinn var af Glitni, stóð fyrir rúmum þriðjungi af heildarlánum lífeyrissjóða til Baugs. Framkvæmdastjóri sjóðsins segir að með hliðsjón af því hversu illa fyrirtækin í landinu standi sé ljóst að skuldabréfakaup í Baugi hafi ekki verið góður kostur.

Eins og fram kemur í kröfulýsingaskrá Baugs, sem fréttastofa hefur undir höndum, eru kröfur íslenskra lífeyrissjóða í þrotabúið um 4,5 milljarðar króna. Ólíklegt er að mikið fáist upp í þær kröfur.

þrátt fyrir að vera einungis sjötti stærsti sjóður landsins stóð hann fyrir rúmum þriðjungi af heildarlánveitingum lífeyrissjóðanna til Baugs.

Aðrir stærri lífeyrissjóðir lánuðu Baugi minna, en LSR sem er stærsti sjóður landsins á 1,2 milljarða kröfu í þrotabúið.

Stærsti hluthafi Glitnis þegar bankinn féll var Stoðir með þrjátíu prósenta hlut. Einn helsti eigandi Stoða á þeim tíma, Jón Ásgeir Jóhannesson, var jafnframt stjórnarformaður og stærsti eigandi Baugs.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, baðst undan viðtali. Hann sagði í samtali við fréttastofu að sjóðurinn hafi ekki verið beittur þrýstingi um að fjárfesta í skuldabréfum Baugs. Spurður hvort svo stór fjárfesting í skuldabréfum eins fyrirtækis samrýmdist góðri áhættustýringu segir Gunnar að á sínum tíma hafi sjóðurinn talið gott að bæta fyrirtæki í safnið sem byggði afkomu sína að stórum hluta af smásölurekstri.

Með hliðsjón af því hve skuldabréf banka og fyrirtækja hafa farið illa í efnahagshruninu sé núna ljóst að skuldabréf Baug líkt og ýmis önnur hafi ekki verið góður kostur fyrir lífeyrissjóðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×