Viðskipti innlent

Korta­velta í mars sýnir vel á­hrif sam­komu­banns

Eiður Þór Árnason skrifar
Kortavelta snyrti- og rakarastofa hrundi á einni nóttu.
Kortavelta snyrti- og rakarastofa hrundi á einni nóttu. Rannsóknasetur verslunarinnar

Greiðslukortavelta Íslendinga dróst saman um 12,5% í mars síðastliðnum samanborið við mars í fyrra en netverslun ríflega tvöfaldaðist á milli ára. Á sama tíma sáust tekjur snyrti- og rakarastofa hverfa yfir nótt. 

Kortavelta í verslun er í heildina nær óbreytt frá sama mánuði í fyrra en þjónustuflokkarnir taka höggið, er fram kemur í tölum sem Rannsóknasetur verslunarinnar tekur saman

Netverslun jókst um 111% á milli ára og var í stöðugum vexti allan mánuðinn. Netverslun í mars 2020 nam 1,7 milljarði samanborið við rúmar 800 milljónir í mars 2019.

Hér má sjá þróun netverslunar í marsmánuði sem hlutfall af verslun í heild.Rannsóknasetur verslunarinnar

Í mars jókst kortavelta í dagvöruverslunum og stórmörkuðum um tæp 12% á milli ára. Rannsóknasetrið telur að hér hafi áhrif að neysla í mötuneytum fyrirtækja og á veitingahúsum hafi minnkað til muna sem hafi líklega orðið til þess að þau kaup færist í kaup einstaklinga í matvöruverslunum

Kortavelta í áfengisverslun jókst um 22%

Kortavelta í lyfja-, heilsu og snyrtivöruverslunum jókst um 18% á milli ára, og um heil 177% á netinu frá mars í fyrra. Loks jókst kortavelta í áfengisverslun um tæp 22% á milli ára og nam 2,2 milljörðum í mars síðastliðnum.

Í raftækjaverslun jókst kortavelta í mars um 29% samanborið við sama mánuð í fyrra og nam tæpum tveimur milljörðum. Þá jókst kortavelta í byggingavöruverslun um 9% og nam 2,1 milljarði í liðnum marsmánuði.

Þar að auki dróst eldsneytissala saman um 19% á milli ára í mars og nam 3,8 milljörðum í mánuðinum sem leið.

Þjónustugreinar taka högg

Innlend kortavelta veitingastaða dróst saman um 31% í mars á meðan menningartengd þjónusta svo sem söfn, tónleikastaðir, leikhús og bíó dróst saman um 32% samkvæmt kortaveltutölunum. 

Kortavelta snyrtistofa og áþekkra aðila dróst saman um 24% í mánuðinum sem leið en starfsemi þessara aðila var bönnuð með hertu samkomubanni þann 24. mars. 

Mikill samdráttur var í innlendri kortaveltu í flokkum ferðaþjónustu. Þannig minnkaði innlend kortavelta gistiþjónustu um 46% og ferðaskrifstofa um 82% í mars. Á sama tíma jókst innlend velta bílaleiga um 5,6% á milli ára.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×