Viðskipti innlent

Bjartsýnir á að tilboðinu verði vel tekið

Vilhjálmur Bjarnason fer fyrir hópnum.
Vilhjálmur Bjarnason fer fyrir hópnum.

Líkt og Vísir greindi frá fyrir stundu skilaði undirbúningshópur Almenningshlutafélags um Morgunblaðið tilboði í Árvakur hf. til Íslandsbanka en tilboðsfrestur rann út klukkan 14:00 í dag í tilkynningu frá hópnum segir að það sé mat hópsins að tilboðið sé fyllilega sanngjarnt fyrir hluthafa félagsins, kröfuhafa, starfsmenn og ekki síst lesendur Morgunblaðsins og mbl.is. Hópurinn er afar bjartsýnn á að tilboðinu verði vel tekið.

„Verði Almenningshlutafélag um Morgunblaðið fyrir valinu í þessum lokahnykk útboðs Íslandsbanka er ljóst að markmið um raunverulega dreifða eignaraðild Morgunblaðsins og mbl.is mun nást.

Þá er jafnframt tryggt að þessir rótgrónu fjölmiðlar verði gefnir út án nokkurra tengsla við stjórnmálaflokka, einstakar stjórnmálastefnur, viðskiptablokkir eða auðmenn. Enginn einn hluthafi mun fara með meira en sem nemur þriggja milljóna króna hlutafé," segir í tilkynningunni.

Þá segir ennfremur að undirbúningshópurinn hafi unnið að tilboðsgerð um nokkurt skeið, ásamt VBS fjárfestingarbanka. Hópur fólks hafi farið í gegnum margvísleg gögn um rekstur félagsins og hafi sett saman viðskiptaáætlun til næstu ára.

„Hópurinn vill þakka VBS fjárfestingarbanka kærlega fyrir gott samstarf um tilboðsgerðina. Einnig vill hópurinn koma á framfæri þakklæti til þeirra hundruða einstaklinga, alls staðar að úr þjóðfélaginu, sem lagt hefur lóð sín á vogarskálar framtaksins."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×